Fimmtudagur, 12. 01. 06.
Þegar ég fletti DV í morgun undraðist ég hvers vegna Jónas Kristjánsson kaus að nota dálk á bls. 2 til að endursegja grein úr breska blaðinu The Guardian frá 16. júní 2005 um þá Björgólfsfeðga í St. Pétursborg og sölu á bjórverksmiðju þeirra og Magnúsar Þorsteinssonar þar til Heineken.
Ég sá þessa frásögn í öðru ljósi, þegar ég heyrði í kvöldfréttum, að Björgólfsfeðgar hefðu tvisvar leitast við að eignast DV til að hætta útgáfu þess í mynd Jónasar.
Skýrt var frá því í fréttum, að Guðmundur Marteinsson stjórnandi Bónus-verslananna hefði ákveðið að hætta að auglýsa forsíðu DV við eða í verslunum sínum. Ég óska Guðmundi til hamingju með þessa ákvörðun. Einnig kom fram, að stjórn Samtaka auglýsenda teldi það beinlínis skaðlegt fyrir ímynd auglýsenda að auglýsa í DV.
Í hádeginu var á www.ruv.is haft eftir Jóhannesi Jónssyni í Bónus, að DV hefði selst jafnmikið 11. janúar og venjulega, hann sagði DV ekki verða fjarlægt úr Bónus-verslunum, þótt hann hefði oft á tíðum ímugust á blaðinu. Jóhannes, sem á bæði DV og Bónus, sagði á ruv.is, að viðskiptavinurinn réði því, hvað væri til í Bónus. Orðrétt segir á vefsíðunni eftir honum: „Kúnninn drepur vöruna.“
Síðdegis sagði frá því á ruv.is, að 24.000 manns hefðu skráð sig á netinu gegn ritstjórnarstefnu DV. Dæmi væru um, að sölustaðir á Ísafirði hefðu hætt sölu blaðsins.
Frumkvæði Sigurðar Kára Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem hann kynnti í kvöldfréttum, að lagabreytingum til að bæta réttarstöðu borgaranna gagnvart aðför að æru þeirra og til að tryggja, að þeir eigi rétt á skaðabótum, sem séu íþyngjandi fyrir hinn brotlega, er tímabært. Þótt einhverjir blaðamenn vilji hundsa siðareglur eigin félags og fara að heimasmíðuðum reglum, geta þeir ekki vikist undan landslögum.
Í hádeginu var ég með nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á kynningarfundi í Íslandsbanka, þar sem Bjarni Ármannsson forstjóri flutti fróðlega ræðu um starfsemi bankans og svaraði síðan fjölmörgum fyrirspurnum.