19.1.2006 21:13

Fimmtudagur, 20. 01. 06.

Stefán Ólafsson prófessor fer mikinn í fjölmiðlum þessa daga, þegar hann veitist að ríkisstjórninni, okkur ráðherrunum og stjórnmálamönnum með árásum um brellur og mestu stjórnmálaósannindi um áratugaskeið. Hann ritaði grein í Morgunblaðið miðvikudaginn 18. janúar um þetta mál. Þar rær hann á sömu mið og í bókinni Hnattvæðing og þekkingarþjóðfélag, sem hann skrifaði með Kolbeini Stefánssyni og kom út fyrir jólin.

Ég skrifaði umsögn um þessa bók í tímaritið Þjóðmál, sem kom út í desember sl. Í bókinni notar hann einnig orðið „brellur“ um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar. Í umsögn minni segi ég:

„ Hér er ástæða til að staldra við bæði niðurstöðu og orðalag. Eru það brellur, að lækkun skatthlutfalls leiði til meiri skatttekna? Kann það ekki einfaldlega að stafa af því, að efnahagsumsvifin aukast og arðsemi þeirra? Ef höfundar vísa til skatthlutfalls með orðinu „skattaálagningar“, er lækkun hlutfallsins að öðru óbreyttu engin sýndarlækkun – skattbyrðin léttist. Ýmislegt getur hins vegar breyst og á síðustu árum hafa laun hér á landi til dæmis hækkað svo ört, að miðað við óbreyttan persónuafslátt greiða margir hærri skatta þrátt fyrir lægra skatthlutfall. Það er hins vegar vegna hærri launa og þrátt fyrir lækkun skatta, en ekki vegna lækkunar skatthlutfallsins! Þetta hefur átt þátt í því hér á landi, að heildarskatttekjur hafa vaxið (líka sem hlutfall af landsframleiðslu) en það er ekki þar með sagt að efnahagur fólks hafi versnað. Ef höfundar eru að vísa til þess með orðunum „breikkun skattstofna“, að fleiri greiða hér tekjuskatt en áður, er ástæða til að gera athugasemd við þá orðnotkun. Þar er um það að ræða, að tekjur fleiri en áður hafa aukist upp fyrir skattleysismörk. Kaupmáttur - það sem menn hafa í vasann eftir skatta - hefur snarhækkað hér á landi. Ef höfundar eru að vísa til þess með orðum sínum, að hækkunin hér er að hluta vegna hækkunar sveitarfélaganna á skatthlutfalli sínu, útsvarinu, á sama tíma og ríkið hefur lækkað hlutfall sitt, hefðu þeir átt að segja það beinum orðum.“

 

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, deildi við Stefán Ólafsson í Kastljósi í kvöld og benti á ýmsa veikleika í málflutningi prófessorsins, þar á meðal að hann tæki ekki mið af þeirri breytingu, sem hefði orðið, þegar ákveðið var að leggja á 10% fjármagnstekjuskatt. Stefán brást hart við, þegar Pétur kallaði hann vinstrimann. Lokaorð mín um bók Stefáns og Kolbeins í Þjóðmálum eru þessi:

„Ég er ekki sammála hinum pólitísku niðurstöðum höfundanna en met bók þeirra sem gagnlegt framlag til umræðna um þróun vestrænna þjóðfélaga og það, sem skilur á milli ríkja eftir hagkerfum, stjórnarháttum og stjórnmálastefnum. Kenningar höfundanna eru í ætt við sjónarmið þeirra, sem boðað hafa þriðju leiðina, það er kenningar vinstra megin við miðju, án þess að teljast beinlínis sósíalískar, það er vinstra megin við miðju sem þó hefur færst verulega til hægri síðustu tvo áratugi. Í pólitísku ljósi má líta á bókina sem fræðilega viðleitni til að færa miðjuna til vinstri á nýjan leik.“

Af þessu má ráða, að ég tel skoðanir Stefáns Ólafssonar í bók hans vinstrisinnaðar – að réttmætt sé að kalla Stefán vinstrimann vegna skoðana hans ætti að liggja í hlutarins eðli. Og hvers vegna skyldi honum vera misboðið vegna þess?

Fjármálaráðuneytið fjallar um kenningar Stefáns Ólafsson í vefriti sínu, sem birt var í dag.