Miðvikudagur 25. 01. 06.
Árni Þór Sigurðsson, oddviti vinstri/grænna í borgarstjórn Reykjavíkur, ritaði grein í Morgunblaðið 26. maí 2005 þar sem hann sagði m.a. að Orkuveita Reykjavíkur ætti ekki að taka þátt í „álæðinu“ með því að leggja í áhættusamar framkvæmdir, hvort sem það væri vegna álvers í Helguvík eða á Norðausturlandi.
Nú berast þær fréttir, að fulltrúi vinstri/grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sé því hlynntur, að fyrirtækið taki þátt í því með Landsvirkjun að útvega orku, svo að unnt sé að stækka álverið í Straumsvík. Fulltrúi vinstri/grænna í stjórn Landsvirkjunar lagðist hins vegar gegn því. að Landsvirkjun gerði ráðstafanir til að úvega þessa orku.
Greinilegt er, að einhvers konar „álæði“ er runnið á vinstri/græna, hvort sem á að túlka það með eða á móti áli. Kannski er bara um sambærilegan tvískinnung að ræða og þegar vinstri/grænir vinna að því öllum árum að vernda fugla í Þjórsárveri á sama tíma og fuglar drepast við Tjörnina og í Vatnsmýrinni vegna þess að vinstri/grænir standa ekki vaktina, þar sem þeir bera þó ótvíræða ábyrgð á stjórn umhverfismála.
Árið 1986 keypti Steve Jobs stofnandi Apple fyrirtækið Pixar á 10 milljónir dollara. Í dag var skýrt frá því, að hann hefði selt Pixar til Disney fyrir 7,4 milljarði dollara. - Geri aðrir betur með teiknimyndastofu. Ég var í New York sumarið 1999 í boði Apple og hlustaði á Jobs kynna iBook-tölvuna og ræða stöðu fyrirtækisins. Um það má lesa hér á síðunni.
Google-fyrirtækið er orðið svo á allra vörum, að nú er orðið til nýtt sagnorð - to google. Í dag er sagt frá því, að Google hafi orðið við óskum kínverskra yfirvalda um að setja síu í leitarforrit sitt í Kína, svo að notendur þar geti ekki fundið neitt sem stjórnvöldum finnst óþægilegt fyrir sig. Sé t.d. slegið inn orðunum Falun gong koma slóðir, þar sem félagsskapnum er hallmælt af mikilli óvild. Talið er líklegt að kínverskir tölvukunnáttumenn verði ekki lengi að komast yfir eða í kringum þennan nýja Kínamúr.
Evrópunefndin kom saman til fundar í hádeginu. Starfi nefndarinnar miðar vel og stefnum við að því að gefa út skýrslu okkar í árslok.