Mánudagur, 16. 01. 06.
Þegar tími gefst geng ég hring í Fossvoginn, Nauthólsvík og yfir Öskjuhlíðina í 40 til 45 mínútur. Af þeim dögum, sem ég hef gengið í vetur, var þessi sá kaldasti - sérstaklega þegar gengið var á móti vestri eða norð-vestri upp í vindinn.
Annars sat ég fundi um nýskipan lögreglumála og almannavarnir í dag. Hér á landi eins og annars staðar eru stjórnendur almannavarna að undirbúa viðbrögð vegna hugsanlegrar fuglaflensu, en mest ábyrgð við áhættumat hvílir á einum manni, sóttvarnalækni. Telji hann ástæðu til aðgerða er nauðsynlegt að samhæfa krafta margra og til þess er almannavarnakerfið.
Hvarvetna eru stjórnvöld að velta fyrir sér aðgerðum, ef fuglaflensan skyldi breytast í faraldur. Í síðustu viku skýrði heilbrigðisráðherra Frakka frá ráðstöfunum þar í landi. Frönsk stjórnvöld telja að 9 til 21 milljón manna kunni að veikjast í faraldri og 91.00 til 212.000 að deyja. Meginstefna franskra heilbrigðisyfirvalda er að hjúkra sem flestum í heimahúsum til að ofþyngja ekki sjúkrahúsum, sem ætlað er að sinna þeim veikastir eru, og gera allt sem unnt er til að komast hjá meiriháttar upplausn í þjóðfélaginu (stöðvun samgangna, lokun skóla og fyrirtækja) og stuðla þannig að eins eðlilegu atvinnu- og þjóðlífi og frekast er unnt.
Stjórnvöld alls staðar nálgast þessi mál af mikilli alvöru en jafnframt af varúð í öllum viðbrögðum til að skapa ekki ástæðulausan ótta. Má sjá það best af því, hvernig tyrkneska ríkisstjórnin leitast við að draga úr hræðslu Tyrkja vegna dauðsfalla þar í landi. Höfuðáhersla er á að skýra mál sem best fyrir almenningi og drepa fugla, sem talið er að gætu smitað fólk. Enn hafa ekki borist neinar fréttir um, að flensan hafi smitast milli manna, heldur veikist fólk af snertingu við sýkta fugla.