4.1.2006 22:36

Miðvikudagur, 04. 01. 05.

Ég hélt áfram að kynna tillögurnar um stækkun lögregluumdæma. Fór til dæmis í fyrsta sinn í höfuðstöðvar NFS við Skaftahlíð og átti þar hádegisviðtal við Sigmund Erni. Við vorum í myndveri án tökumanna, eins og í hljóðveri, þar sem tæknimenn sitja utan dyra og fylgjast með og stjórna upptöku, hér stjórnuðu þeir starfrænum myndavélum. Sigmundur Ernir sagði mér, að hann hefði heimsótt BBC World Service TV og þar væri rýmið minna en hjá fréttaþulunum hjá NFS.

Þá ræddi ég við fréttamann sjónvarps og hljóðvarps ríkisins, sem báðir komu á minn fund. Á NFS nota þeir efnið, sem þeir afla í sjónvarpi og hljóðvarpi - klippa og endurnýta. Hjá RÚV þarf maður að tala við að minnsta kosti tvo fréttamenn. Fréttirnar verða vonandi betri við að fleiri komi að því að afla þeirra í samtali við sama manninn um sama málið.

Ég skil vel, að á Seyðisfirði og í Borgarnesi verði þeir fyrir vonbrigðum, sem litu þannig á, að fyrstu tillögur um staði fyrir lykilembætti væru lokatillögur, þegar lagt er til að embættin verði í Farðarbyggð og á Akranesi. Vonbrigðin geta ekki byggst á því, að þjónusta lögreglu við þessa staði minnki, því að það gerir hún ekki, heldur hljóta þau að byggjast á metnaði fyrir byggðarlag sitt, sem ber að virða.

Eins og ég sagði í gær átti ég góðan fund með fulltrúum sveitarstjórnar Borgarbyggðar um málið í aðdraganda ákvörðunarinnar og ræddum við eflingu löggæslu í byggðarlaginu.