15.1.2006 18:35

Sunnudagur, 15. 01. 06.

Jóhann Hauksson, sem var áður starfsmaður RÚV, er nú stjórnmálablaðamaður Fréttablaðsins. Hann skrifar um stjórnmál í sunnudagsblaðið og segir í dag, að mér hafi vaxið ásmegin eftir að hæstréttur dæmdi mig hæfan (!) til að setja sérstakan ríkissaksónara í Baugsmálinu. Ég set (!) á eftir orðalagi blaðamannsins, því að það er litað af þeirri skoðun málsvara Baugs, að ég hafi verið vanhæfur, þar til hæstiréttur segði annað. Þetta er skrýtinn áróður, sem stenst ekki. Ég var alla tíð hæfur til að vinna þetta embættisverk.

Jóhann ræðir þetta mál til að nefna, að ég skuli hafa rætt dóm hæstaréttar hér á síðunni sama dag og hann var felldur „sem nemur heilli þéttskrifaðri síðu.“ Jóhann birtir hugleiðingu sína undir fyrirsögninni: Hvatning frá Hæstarétti og lýkur á þeim orðum, að rannsókn á vegum Gallups hafi sýnt, að ég hafi opinberlega tjáð mig mest allra manna um Baugsmálið, ef frá væru talin opinber ummæli málsaðila sjálfra.

Jóhann fer þarna í fótspor starfsbræðra sinna á DV, sem ég vitnaði til hér í dagbókinni í gær. Ég veit ekki, hvort Jóhanni finnst, að mælingar Gallups eigi að ráða því, hvort ég nefni mál hér á síðunni eða annars staðar. Málefni Baugs og Baugsmiðla mun ég ræða hér áfram, þegar mér finnst tilefni til þess.

Jóhann átti aðalfrétt Fréttablaðsins á forsíðu þennan sunnudag og var hún um, að Kjartan Gunnarsson hefði sem formaður bankaráðs Landsbanka Íslands ráðið úrslitum um eftirlaunarétt starfsmanna Seðlabanka Íslands! Seðlabankastarfsmenn hafi tapað fjórum málum fyrir hæstarétti og frétt Jóhanns var um, að Kjartan væri sökudólgurinn. Þetta er ein af þessum furðufréttum, sem aðeins geta birst á forsíðu Fréttablaðsins og tilgangur hennar virðist helst, að gagnrýna Kjartan Gunnarsson fyrir niðurstöðu annarra.