14.1.2006 18:39

Laugardagur, 14. 01. 06.

Egill Helgason segir í dag frá samskiptum sínum við blaðamenn DV í pistli á vefsíðu sinni. Hann telur einnig, að Eiríkur Jónsson, stjörnublaðamaður DV, muni halda áfram á sömu braut, þótt ritstjóraskipti hafi orðið á blaðinu.

Ritstjórn DV gerir mér þann heiður í dag, að agnúast út í skrif mín um blaðið hér í dagbókinni síðustu daga. Í DV stendur meðal annars: „Björn Bjarnason. Telur sig nú, eftir Hæstaréttardóm um að hann sé ekki vamhæfur til að setja ríkissaksóknara vera í aðstöðu til að viðra andúð sína á Baugsmiðlum.“

Gaman að heyra fréttir af því á NFS að nábúar mínir í Fljótshlíðinni Eggert og Jóna að Kirkjulæk II eiga kýr með mestu nyt í landinu.

Í kvöld var sýndur í DR2, það er á annarri rás danska ríkissjónvarpsins, þáttur um Ísland, þar sem meðal annars var rætt við mig um álfa, qi gong og fleira. Að loknum þættinum, sem stóð í klukkustund, var sýnd mynd Friðriks Þórs Cold Fever.