Föstudagur, 27. 01. 06.
Ég færi Ásgeiri Sverrissyni hamingjuóskir með að hafa verið ráðinn ritstjóri Blaðsins. Við unnum saman á erlendum fréttum Morgunblaðsins á sínum tíma og veit ég, að Ásgeir mun leggja hart að sér í hinu nýja ábyrgðarstarfi.
Rúm fjögur ár eru liðin síðan Enron risafyrirtækið bandaríska hrundi til grunna eftir ásakanir um mikil bókhaldssvik. Fyrrverandi stjórnendur fyrirtækisins hafa hins vegar ekki verið kallaðir fyrir rétt fyrr en núna eftir fjögurra ára rannóknarvinnu saksóknara. The Economist segir að nú bíði ákæruvaldsins hið erfiða lögbundna verkefni að sanna fyrir kviðdómi, að hinir ákærðu hafi vitað, að þeir voru að brjóta lögin. Í stórum dráttum byggist ákæran á því, að tveir höfuðstjórnendur Enrons hafi lagt á ráðin um víðtækt samsæri til að villa um fyrir fjárfestum og gefa þeim ranga mynd að raunverulegri stöðu Enrons.
Angar Enron málsins teygja sig víða og um suma þeirra hefur þegar verið dæmt, eins og til dæmis ábyrgð endurskoðunarfyrirtækisins Arthurs Andersens, sem leið undir lok vegna Enron hneykslisins, en var sýknað í hæstarétti Bandaríkjanna af ákæru um að hafa hindrað framgang réttvísinnar með því að eyða í tonnatali bókhaldsgögnum frá Enron. Sýkna hæstaréttar byggðist á því að dómari á lægra dómstigi hafði leiðbeint kviðdómi á vitlausan hátt.
Ég hafði ekki tök á fylgjast neitt með sjónvarpsendingum á 250. afmælisdegi Mozarts fyrr en í erlendum stöðvum í kvöld, en tónleikum Vínar-fílharmóníunnar frá Salzburg var sjónvarpað í sænska og norska sjónvarpinu.