5.1.2006 20:40

Fimmtudagur, 05. 01. 06.

Til að búa mig betur undir verkefni ársins skrapp ég austur i Fljótshlíð og sinn hér ýmsum verkefnum, sem gott er að leysa í sveitakyrrðinni.

Kyrrðin var þó ekki mikil fram eftir degi, því að hann gekk á með þrumum og eldingum, þar til að fór að snjóa síðdegis. Vatnsveðrið var með ólíkindum á eftir skruggunum. Þegar dálítið hafði snjóað, stytti upp og birtan varð ævintýranleg út á Landeyjarnar og til Vestmannaeyja.

Ég skrapp út í haga til að líta eftir hrossunum og til að átta mig á því, hvort þau hefðu fælst við flugelda um áramótin - mér virtust þau eins og áður og komu hlaupandi til mín, þegar þau áttuðu sig á því, að ég var með plastpoka og kannski með einhverju nammi handa þeim. Ég læt mér nægja að ganga að girðingunni og það bregst ekki að hrossin koma til mín og elta mig síðan, þegar ég held aftur heim á leið niður með girðingunni heim að bænum.

Mér þótti einkennilegt að lesa ummæli sýslumannsins í Borgarnesi um tillögur að nýjum lögregluumdæmum og hlusta á fréttir hljóðvarps og sjónvarps ríkisins um viðbrögð sjálfstæðismanna í Mýrasýslu. Það er alls ekki verið að þrengja neitt að sýslumanninum eða íbúum Mýrasýslu með þessum tillögum fyrir utan að sýslumaðurinn á ekki frekar en aðrir sýslumenn kröfu til neins í sambandi við þessa breytingu, þótt ráða megi af þessum viðbrögðum, að verið sé að lækka á embætti hans risið - það er alls ekki.