Þriðjudagur, 31. 01. 06.
Glæsilegt að sigra Rússa í handbolta. Til hamingju!
Og Þorsteinn Pálsson að verða ritstjóri Fréttablaðsins, enn hækkar risið á Baugsmiðlum. Ég hef aldrei áttað mig almennilega á því, hvernig blað menn vilja að Fréttablaðið sé. Kannski kemur einhver mynd á það núna.
Nýr ritstjóri á Fréttablaðið og nýr ritstjóri á Blaðið auk nýrra ritstjóra á DV. Þettu eru breytingatímar í fjölmiðlaheiminum. Hvað skyldu vinstrisinnar segja um þetta? Ekki vildu þeir, með forseta Íslands í fararbroddi, neinar breytingar á fjölmiðlum sumarið 2004. Ætli þetta sé ekki líka einum of mikið fyrir þá?
DV sneri sér til Stefáns Ólafssonar prófessors og spurði, hvort hann vildi eitthvað segja í tilefni pistils míns sl. sunnudag um hinn pólitíska þríhyrning. Stefán var ekki á þeim buxunum að svara heldur sagði við blaðið: „Ég hef engan áhuga á að fara í pólitískan leðjuslag við Björn Bjarnason né nokkurn annan.“ Þarna höfum við það, sé þeirri skoðun Stefáns andæft, að stjórnvöld beiti „skattalækkunarbrellu“ og segi stórkostleg ósannindi, er verið að skora á hann í „pólítískan leðjuslag“.
Stefán sagði ekki unnt að finna neinn óháðan aðila til að leggja mat á skýrslu sína, sem unninn var fyrir Öryrkjabandalag Íslands. Ekki er við hæfi fyrir prófessorinn að ræða um skoðanir sínar við stjórnmálamann, leðja stjórnmálanna kynni að slettast á hann.
Vandræði Dana vegna skopteikninga af Múhameð magnast enn og í leiðara Berlingske Tidende í dag er þeim lýst á þennan veg: „... de politiske, ökonomiske, og diplomatiske konsekvenser for Danmark har naaet et niveau, hvor mand med fuld dækning kan tale om en regulær national krise.“ Hér er ekki lítið sagt um vanda vina okkar í Danmörku. Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra hvatti Dani í dag til að sýna stillingu, þeir ættu í miklum vanda vegna óvildar þjóða, sem þeir hefðu þó stutt á marga lund.
Sama dag og staða Dana er á þennan veg birtist viðtal við þýska utanríkisráðherrann Frank-Walter Steinmeier í Der Spiegel undir fyrirsögninni: Ástandið (vegna Írans) er eldfimt og hættulegt. Og fyrsta spurningin er þessi: „Ráðherra, deilan við Írani vegna kjarnorkuáætlunar þeirra harðnar. Forseti Frakklands hefur jafnvel opinberlega velt fyrir sér beitingu kjarnorkuvopna. Stendur veröldin á barmi nýrra hernaðarátaka?“
Ráðherrann svarar: „Við stöndum í miðri deilu, þar sem sumir sækja vígalegir fram. En við erum ekki á barmi hernaðarátaka. Við höldum áfram að beita diplómatískum tækjum. Enginn þeirra, sem ég er í tengslum við á þessari stundu, telur hernað við hæfi.“
Fyrir skömmu birti Der Spiegel viðtal við Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, þar sem hann sagðist treysta því, að Evrópusambandið og aðildarríki þess gætu komið vitinu fyrir Írani í kjarnorkumálum.