17.1.2006 20:31

Þriðjudagur, 17. 01. 06.

Það var dálítið skrýtið að ganga úr þinghúsinu rétt fyrir kl. 14.00 og inn á fund borgarstjórnar, þar sem Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi frjálslyndra, talaði eins og hann væri að stöðva Norðlingaölduveitu. - Skrýtið vegna þess að í þinghúsinu lýstu forsætisráðherra og umhverfisráðherra yfir því, að framkvæmdir við þessa veitu á vegum Landsvirkjunar væru ekkert á næsta leiti. Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra sagði að veitan hefði verið „sett á ís.“ Hún sagði einnig, að ekkert mælti gegn því að stækka friðlandið í Þjórsárverum.

Í ljósi þess, sem gerst hefur varðandi Norðlingaölduveitu undanfarnar vikur og síðustu daga á vettvangi ríkisstjórnar og Landsvirkjunar, var tillaga Ólafs F. í borgarstjórn hrein sýndartillaga, tilraun til að draga að sér athygli í aðdraganda kosninga. Prófkjörsframbjóðendur í Framsóknarflokki og Samfylkingu telja sér greinilega til framdráttar að láta eins og þeir séu að vinna stórvirki í náttúruvernd með því að styðja Ólaf F.

Hlutur Alfreðs Þorsteinssonar, oddvita framsóknarmanna, í þessu máli er sérstaklega einkennilegur, því að ekki þarf hann að ná í nein atkvæði í prófkjöri og þess vegna fara í þennan blekkingarleik með Ólafi F. - er þó Ólafur F. með færri atkvæði samkvæmt síðustu skoðanakönnunum í Reykjavík en jafnvel Framsóknarflokkurinn. Alfreð stjórnaði fundi, þegar greidd voru atkvæði um tillögu Ólafs F., og gerði það, sem aldrei er ella gert í borgarstjórn eða á alþingi, að hann tók fram, að sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu setið hjá við atkvæðagreiðsluna. Vandaðir fundarstjórar segja aðeins, hvernig atkvæði féllu en kenna þau ekki við einstaka flokka - með því gengur fundarstjóri á svig við hlutleysi sitt.

Við sjálfstæðismenn sátum hjá með bókun. Við teljum að leggja eigi Norðlingaölduveitu til hliðar en viljum jafnframt, að hið lögbundna ferli vegna ákvörðunar um veituna verði gengið á enda. Undanfarin ár hafa verið samþykkt lög og settar reglur um framgang mál með vísan til umhverfismats og skipulagsreglna. Þau lög á að virða í þessu máli eins og öðrum en ekki ganga fram á þann veg, að í krafti eignarhalds á Landsvirkjun sé hlaupið einhliða frá óloknu verki. Þessir stjórnsýsluhættir eru því miður dæmigerðir fyrir R-listann í skipulagsmálum enda velkjast stórmál árum saman í óvissu.