Laugardagur 21. 01. 06.
Kolbrún Bergþórsdóttir ræðir við Bubba Morthens í Blaðinu í dag. Bubbi segir: „Sem ungur maður var ég harður anarkisti en ég (svo) dag er ég hægri krati.“ Margir hægri kratar fylgja Sjálfstæðisflokknum eða mönnum innan hans að málum, enda hefur Bubbi ekki hikað við að gera það á opinberum vettvangi. Bubbi tekur upp hanskann fyrir biskup Íslands og telur, að viðbrögð við nýarsprédikun hans sýni, að samkynhneigðir séu „fullir af fordómum gagnvart biskupi.“
Bubbi segir einnig: „Um leið og þú gefst upp sigrarðu og það gefur þér gæfu. Því meira sem menn rembast við og neita að gefast upp því lengur framlengja þeir þjáningu sína og vanlíðan. Uppgjöf er stórlega vanmetið fyrirbæri.“
Ég hef áður minnst á bókina Chronicles 1 eftir Bob Dylan. Þar segist hann hafa hrifist mest af Barry Goldwater af bandarískum stjórnmálamönnum á fyrri hluta sjöunda áratugarins. Goldwater, sem tapaði í forsetakosningum árið 1964 gegn Lyndon B. Johnson, var hreinræktaður íhaldsmaður en sagt er að skoðanir hans hafi komið til framkvæmda um tveimur áratugum síðar í forsetatíð Ronalds Reagans.