30.1.2006 19:22

Mánudagur, 30. 01. 06.

Loftslagsumræður stjórnarandstöðunnar vegna hugmynda um ný álver hér á landi eru til marks um, að enn er gripið til allra ráða til að gera eflingu atvinnulífs tortryggilega. Ef bannað verður með alþjóðasamningi að nýta hreina orku hér á landi til að framleiða ál, geta ekki verið loftslagsrök að baki slíku banni. Þegar rætt er um Kýótó-samkomulagið er látið eins og það snúist aðeins um umhverfismál - að baki samkomulaginu býr einnig viðleitni til að flytja efnahagsumsvif frá iðnvæddum ríkjum til hinna, sem standa þeim ekki á sporði.

Iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir hefur kynnt, að unnt sé að ræða hér um stækkun álversins í Straumsvík, nýtt álver Alcoa á Norðurlandi og enn eitt álverið hér suðvesturlands, án þess að farið sé út fyrir þau losunarmörk, sem Íslandi eru sett samkvæmt Kýótó-samkomulaginu, en það gildir til 2012. Samfylkingarþingmenn virðast annarrar skoðunar og Kolbrún Halldórsdóttir þingmaður vinstri/grænna verður hin versta í ræðustól alþingis, þegar hún ræðir þessi mál.

Horfði á kvöldfréttir danska sjónvarpsins, sem snerust nær allar um vandræði Dana vegna viðskiptabanns á vörur þeirra í múslímalöndum til að mótmæla skopmyndum af Múhameð spámanni, sem birtust í JyllandsPosten í nóvember 2005. Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra var í löngu viðtali og ítrekaði, að danska stjórnin gæti ekki rætt við sendiherra erlendra ríkja um, að hún ætlaði að höfða mál á hendur dönsku dagblaði vegna þess, sem þar birtist. Síðdegis sendi JyllandsPosten frá sér afsökunarbeiðni. Forsætisráðherrann sagði, að hann hefði aldrei getað gert sér í hugarlund, að þetta mál þróaðist á þennan veg.

Dagur B. Eggertsson, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar og frambjóðandi til forystu í prófkjöri Samfylkingarinnar, fjargviðraðist yfir því í sjónvarpi í kvöld, að Gísli Marteinn Baldursson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefði sagt okkur sjálfstæðismenn á móti nýrri bensínstöð í Vatnsmýrinni á milli háskólasjúkarhúss og háskóla - við hefðum áður samþykkt stöðina. Þetta er sami Dagur, sem sagði á dögunum, að eftir á að hyggja hefði ekki verið skynsamlegt að leggja Hringbrautina nýju, eins og gert var undir skipulagsstjórn R-listans. Er ekki betra að sýna forsjálni eins og Gísli Marteinn gerði, þótt skipt sé um skoðun, heldur en áskilja sér rétt til að vera vitur eftir á eins og Dagur - og skipta þá um skoðun?

Að lokum legg ég til að Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifi tvær blaðagreinar á hverjum degi um menntamál - þá mundi Samfylkingin líklega minnka enn hraðar.