8.1.2006 19:15

Sunnudagur, 08. 01. 06.

Ókum úr Fljótshlíðinni í dag - í gegnum þrjú veðurkerfi - frostbirtu, snjókomu og rigningu. Ég hef ekið víða um heim en aldrei kynnst því nema á Hellisheiði, að ökumenn telji sér sæma að aka fram úr í niðaþoku, hægramegin á vegaröxl. Það er ekki þessum ökumönnum að þakka, að ekki verði stórslys.

Sé á vefsíðu BBC, að Tony Banks eða Stratford lávarður er látinn eftir hjartaáfall á Sanibel eyju, Flórída. Tony Banks var íþróttamálaráðherra í stjórn Tonys Blairs um tíma. Hann gekkst upp í því að vera „maður litla mannsins“ í Verkamannaflokknum og á breska þinginu. Ég kynntist honum fyrir rúmum áratug, þegar við sátum saman á þingi Evrópuráðsins, þar sem hann barðist til dæmis harkalega gegn hvalveiðum. Eftir honum var haft, að þeir, sem vildu éta hval, gætu alveg eins étið hver annan.

Ragnar Arnalds, höfundur ágætrar bókar um Jörund hundadagakonung, Eldhuginn, sagði mér á dögunum, að Tony Banks hefði verið afkomandi Josephs Banks, sem stóð að baki för Jörundar til Íslands á sínum tíma og var mikils metinn hjá Bretum og víða um heim á sínum tíma.

Fórum á tónleika Tallis Scholars í troðfullri Langholtskirkju kl. 20.00.