26.2.2015 18:40

Fimmtudagur 26. 02. 15

Danska ríkisstjórnin leggst gegn hugmyndum um að afmá ákvæði gegn guðlasti úr hegningarlögum og styðst þar við túlkun danska refsiréttarráðsins sem segir að ákvæðið útiloki ekki gagnrýni á trúarbrögð og trúarkenningar. Á hinn bóginn kunni það að kalla til dæmis á að menn brenni Biblíuna eða Kóraninn verði ákvæðið um guðlast afmáð og yfirvöld hafi engin ráð til að snúast gegn framferði af slíku tagi.

Eftir að álit ráðsins birtist sagði Mette Frederiksen, dómsmálaráðherra úr Jafnaðarmannaflokknum: „Mér er óljóst hvernig samfélagið styrkist eða hvernig það getur auðgað opinberar umræður að það verði löglegt að brenna heilög rit.“ Ráðherrann ætlar ekki að beita sér fyrir að ákvæðið verði þurrkað úr danska lagasafninu.

Það var laganefnd danska þingsins sem hvatti til þess á sínum tíma að dómsmálaráðherrann fengi álit refsréttarráðsins á lögfræðilegum afleiðingum þess að ákvæðið um guðlast yrði afmáð. Síðasti dómur vegna þess féll í Danmörku árið 1946 en þá hafði par farið í hempu og skírt dúkku á karnivali.

Nokkrar umræður hafa orðið hér um ákvæði um guðlast í almennum hegningarlögum eftir að hryðjuverkamorðin voru framin í París 7. janúar. Hafa þrír þingmenn pírata flutt frumvarp til laga um að afmá 125 gr. alm. hegningarlaga þar sem guðlast er lýst refisvert.  Kalla þingmennirnir ákvæðið „augljósasta smánarblettinn“ á hegningarlögunum. Virðast þeir skilja lagagreinina á þann veg að hún setji tjáningarfreslinu íþyngjandi skorður. Það sé „með öllu óraunhæft að ætla mannlegum hugsunum, tilfinningum og skoðunum að rúmast alltaf innan ramma svokallaðs almenns velsæmis“. Þeir segja meðal annars í rökstuðningi sínum: „Í þriðja lagi geta ráðamenn Íslands ekki fordæmt beitingu sambærilegra lagagreina í ófrjálsari löndum meðan þær er einnig að finna í refsilöggjöf hérlendis.“

Þess má geta að biskupinn yfir Íslandi og forsætisráðherra Íslands hafa tekið undir með pírötum. Komist frumvarp þeirra til þingnefndar kallar hún vonandi eftir áliti refsiréttarnefndar svo að misskilningur eða óðagot ráði ekki í þessu máli.