23.2.2015 20:30

Mánudagur 23. 02. 15

Í ræðu sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti á fundi Varðbergs hinn 5. febrúar varaði hún við því að Ísland yrði veiki hlekkurinn í viðbrögðum vegna hættunnar á hryðjuverkum. Rifjaði hún upp umræður um nauðsyn forvirkra rannsóknarheimilda í höndum lögreglu án þess að taka sjálf afstöðu til þess hvort nauðsynlegt væri að innleiða þær. Fleira ber að hafa í huga þegar lagt er mat á hvort landið sé veikasti hlekkurinn í þessu tilliti.

Nú eru hér á landi tveir hælisleitendur eftirlýstir á Norðurlöndunum og hefur verið óskað eftir framsali þeirra. Á mbl.is má lesa í dag:

„Ann­ar þeirra sagðist við skýrslu­töku hjá lög­reglu styðja íslamska ríkið og vilja taka þátt í stríði fyr­ir guð. Auk þess sæk­ist hann í mynd­efni á in­ter­net­inu sem teng­ist ógn­ar­verk­um hryðju­verka­sam­taka bók­stafstrú­ar­manna.“

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði fyrir helgi kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að mennirnir tveir yrðu hafðir í gæsluvarðhaldi og í dag staðfesti hæstiréttur þá niðurstöðu. Þegar dómarnir eru lesnir vakna spurningar hvað dómarar telja sig þurfa að hafa í höndum til að farið sé að óskum lögreglu sem miða ekki aðeins að því að tryggja öryggi samborgaranna heldur einnig að því að draga ekki upp mynd af Íslandi sem veikasta hlekknum.

Í héraðsdóminum sagði að ekki hefði „nægjanlega [verið] í ljós leitt að ástand varnaraðila eða hegðun hans að undanförnu hafi verið með þeim hætti að það réttlæti svo íþyngjandi ráðstöfun sem felst í varðhaldi.“ Eru þó lýsingar í dóminum á þann veg að augljóst er að mennirnir sýna af sér dónaskap og illsku. Hæstiréttur telur að lögregla hafi ekki gripið til þess úrræðis að leggja fyrir hælisleitendurna „að dvelja á ákveðnu afmörkuðu svæði áður en látið yrði reyna á gæsluvarðhald“. Þess vegna er úrskurður héraðsdóms staðfestur.

„Það er auðvitað óheppi­legt fyr­ir sam­fé­lagið að þar sé ein­hver sem eng­inn veit hver er, hvað hann heit­ir, hvaðan hann kem­ur eða hvers megi vænta af hon­um,“ sagði Jón H.B. Snorra­son, sak­sókn­ari og aðstoðarlög­reglu­stjóri höfuðborg­ar­svæðis­ins, þegar rætt var við hann á mbl.is eftir að niðurstaða hæstaréttar hafði verið kynnt.