8.2.2015 21:30

Sunnudagur 08. 02. 15

Fimmtudaginn 5. febrúar birtist þessi frétt á vefsíðu vinstri grænna vg.is:

„Rétt í þessu óskaði Katrín Jakobsdóttir [formaður VG] eftir því að utanríkismálanefnd [alþingis] ræddi TISA-viðræðurnar  [viðræður um þjónustuviðskipti, Tyrkir hafa kynnt viðauka um heilbrigðisþjónustu] sbr. eftirfarandi: ,,Sæl veriði, ég vil óska eftir því að utanríkismálanefnd fái utanríkisráðuneytið á fund um TISA viðræðurnar og vinnulag ráðuneytisis í kringum þær í ljósi þess að heilbrigðisráðherra vissi hvorki um tillögur tengdar viðskiptum með heilbrigðisþjónustu né afstöðu Íslands í því máli.”

Þessi brýna krafa um fund í utanríkismálanefnd alþingis var sett fram sama dag og Angela Merkel Þýskalandskanslari og François Hollande Frakklandsforseti héldu til Kænugarðs í von um að geta stuðlað að friði milli Úkraínumanna og Rússa. Daginn eftir fóru þau síðan til Moskvu í sömu erindagjörðum.

Þess hefur ekki orðið vart að formaður VG eða nokkur annar alþingismaður hafi vakið máls á nauðsyn þess að hér á landi eins og hvarvetna annars staðar í Evrópu ræði stjórnmálamenn áhrif þess sem gerist í austurhluta Úkraínu á hagsmuni þjóða sinna.

Almennt mat hnígur að því að vatnaskil séu að verða í Evrópu og samskiptum Rússa við vestrænar þjóðir. Í stað sameiginlegrar viðleitni til að stuðla að stöðugleika og jafnvægi ríki nú sundurlyndi og óvild.

Hér skal ekki gert lítið úr nauðsyn þess að bregðast við sjónarmiðum Tyrkja um heilbrigðismál í TISA-viðræðunum. Enn nauðsynlegra er þó fyrir landsmenn að vita hver er afstaða Íslands í fastraráði NATO þar sem menn takast nú á um hvort senda eigi herbúnað til Kænugarðs eða ekki og hvers kyns búnaður það skuli vera.