16.2.2015 20:40

Mánudagur 16. 02. 15

Hinn 14. febrúar ræddi Egill Helgason við mig í Laugardagsviðtalinu og má hlusta á það hér.

Skrifuð hefur verið mörg þúsund blaðsíðna skýrsla um það sem gerðist hér í bankahruninu. Fyrir liggur rúmlega 400 bls. síðna dómur landsdóms í máli gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Ljóst er að bankastjórn Seðlabanka Íslands undir formennsku Davíðs Oddssonar hratt af stað rannsókn á máli sem leiddi hinn 12. febrúar til þungrar sakfellingar yfir fjórum stjórnendum Kaupþings í hæstarétti fyrir brot sem voru  „þaul­skipu­lögð, drýgð af ein­beitt­um ásetn­ingi og eindæma ófyr­ir­leitni og skeyt­ing­ar­leysi“ segir í dómi réttarins.

Þing kom saman í dag eftir kjördæmaviku og Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, lætur eins og nú skipti sköpum að upplýsa um símtal milli Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde hinn 6. október sem þingmaðurinn telur að hafi snúist um 500 milljón evru lán sem veitt var Kaupþingi þann sama dag.

Meirihluti vinstristjórnarinnar sem Guðmundur studdi beitti sér fyrir rannsókn á þessari lánveitingu til Kaupþings í fjárlaganefnd alþingis á síðasta kjörtímabili. Allt hefur verið gert sem vinstri flokkarnir megnuðu til að koma einhverri sök á Geir. Þar ber landsdómsmálið að sjálfsögðu hæst. Málflutningur Guðmundar Steingrímssonar í dag sýnir enn að símtal Geirs við Davíð er þráhyggjumál andstæðinga Sjálfstæðisflokksins, eitt af málunum sem falla vel í kramið hjá fréttastofu útvarpsins og fá meira rými þar en góðu hófi gegnir.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra brást við dóminum yfir Kaupþingsmönnum af meiri skynsemi en formaður Bjartrar framtíðar þegar hann sagði á alþingi í dag að taka ætti til skoðunar hvort ríkissjóður ætti bótakröfu á hendur slitabúi Kaupþings.