28.2.2015 18:45

Laugardagur 28. 02. 15

Eftir að fjölmiðlamenn kynntu sér efni úrskurðar persónuverndar vegna sendingar frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum til innanríkisráðuneytisins vegna hælisleitendans Tonys Omos hafa stjórnendur þeirra áttað sig á að þeir fóru offari í gær þegar þeir fetuðu í fótspor Kjarnans með yfirlýsingum um að Sigríður Björk Guðjónsdóttir hefði gerst sek um lögbrot. Allt annar tónn er í fjölmiðlum um málið í dag enda dettur líklega engum í hug að víkja eigi lögreglustjóra úr embætti vegna þess að mál sem hann sinnti að ósk aðstoðarmanns ráðherra var ekki skráð í málaskrá innanríkisráðuneytisins.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins segir í dag:

„Íslensk Persónuvernd tók í undarlegheitum að skipta sér af málum, sem hún taldi, að uppsprottin nýtíska í furstadæmum eftirlitanna krefðist að hún gerði. Verndin hefur nú skilað áliti, sem engu breytir til eða frá, frekar en frumhlaup Umboðsmanns Alþingis, sem einnig álpaðist á þennan kattarstíg nýtískunnar fyrir skömmu.

Persónuvernd virðist byggja á þeirri túlkun að sé eitthvað ekki beinlínis leyft þá sé það þar með bannað. Það stendur þó hvergi í stjórnarskránni, sem ein gæti skipað fyrir um þvílíka reglu, svo gilt væri. Ef Persónuvernd hefur þetta leiðarljós upp í framtíðinni hefur hún tryggt sér ærin verkefni.

Það er sumt sem mælir með því, að embætti eins og Umboðsmaður Alþingis og Persónuvernd gætu stöku sinnum fremur verið til gagns en hitt. En verði sjálfhverf athyglisþrá, í bland við óskiljanlega feimni við heilbrigða skynsemi, helsti drifkrafturinn verður gagnsemin sjaldgæf.“

Við þetta er engu að bæta nema því að opinberar eftirlitsstofnanir sem telja sig þurfa að eyða viti, kröftum og fé til að rannsaka það mál sem hér um ræðir á þann hátt sem umboðsmaður og persónuvernd hafa gert geta ekki kvartað undan að biðlistar myndist vegna fjárskorts eða ónógs mannafla.