22.2.2015 21:10

Sunnudagur 22. 02. 15

Þegar ég ók úr Fljótshlíðinni síðdegis í dag var merkilegt að sjá hve mikill munur var á veðri þar og þegar komið var rúma 10 km til Hvolsvallar. Það var glórulaust síðdegis í dag að ætla að leita að týndri göngukonu við Mýrdalsjökul fyrir austan Fljótshlíðina. Rok, ofankoma og skafrenningur gerði öllum ókleift að sinna öðru en eigin öryggi við þessar aðstæður. Á leiðinni milli Hvolsvallar og Hellu mætti ég stórum bíl með tvo snjóbíla á pallinum. Var ferðinni heitið nær leitarsvæðinu sem yrði kembt eftir að veðrinu slotaði.

Færðin var góð, auður vegur að Þingborg fyrir austan Selfoss en þaðan að Selfossi var mikill skafrenningur og blinda á veginum. Þegar komið var að hringtorginu við Hveragerði var leiðin upp á Hellisheiði lokuð með varúðarhliði og var björgunarsveitarbíll við það. Lá þá leiðin í átt að Þrengslavegi en þar voru einnig björgunarsveitarmenn sem sögðu Þrengslin ófær, fara mætti Suðurstrandaveg til Reykjavíkur, þar kynni þó að verða blinda vegna skafrennings og hálkublettir.

Það var erfitt að aka í skafrenningnum sem náði nokkuð vestur fyrir Strandarkirkju, rúma 20 km. Vegalengdin frá Hveragerði til Reykjavíkur um Suðurstrandarveg er rúmir 100 km en það kemur sér vel fyrir þá sem koma að lokun yfir Hellisheiði eða um Þrengsli að geta farið þessa leið um Grindavík á mjög góðum og vel lögðum vegi. Baráttan fyrir Suðurstrandarvegi stóð í mörg ár og fagnaði ég því í dag að hún bar góðan árangur.