11.2.2015 18:50

Miðvikudagur 11. 02. 15

 

Í dag ræddi ég við Eyjólf Pálsson í Epal í þætti mínum á ÍNN og má sjá hann klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Á þessu ári eru 40 ár frá því að Epal kom til sögunnar en heiti verslunarinnar er myndað úr upphafsstöfum í nafni Eyjólfs sem hefur allt frá upphafi átt og rekið hönnunarvöru-verslunina eða hugsjónaverslunina, eins og hún var nefnd á sínum tíma. Frá árinu 2006 hefur Epal verið í flugstöð Leifs Eiríkssonar en frá og með næsta sunnudegi, 15. febrúar, er henni úthýst þaðan og þar með tugum íslenskra hönnuða sem eiga verk sín og varning í búðinni.

ISAVIA, opinbert hlutafélag í ríkiseign, bauð út rými í flugstöð Leifs Eiríkssonar með því fororði að þar skyldi yfirbragð þannig að ferðamenn áttuðu sig á því strax og þeir stigu í húsið að þeir væru á Íslandi. Þegar upp er staðið réðu peningasjónarmið ISAVIA sem leigusala alfarið niðurstöðunni en ekki þjóðhagsleg peningasjónarmið eins og sést af brottrekstri Epals og Kaffitárs úr flugstöðvarbyggingunni. Þegar litið er til Epals leiðir lokun verslunarinnar í flugstöðinni til þess að hagur margra hönnuða þrengist og þeir verða að fækka aðstoðarfólki sínu.

Á sínum tíma studdi ég hugmyndir um ohf-væðingu ýmissa opinberra stofnana. Mér finnst hins vegar reynslan af breytingum í þá veru víða hafa misheppnast og til hafi orðið fyrirtæki sem umgangast birgja og viðskiptavini á óviðunandi hátt. Nefni ég þar sérstaklega ISAVIA og ríkisútvarpið.

Leyndarhyggja einkennir meðal annars þessi fyrirtæki eins og birtist í tregðu ISAVIA til að skýra frá hvaða sjónarmið réðu að lokum við mat á þeim sem buðu í rými í flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Nú hefur verið ákveðið að verja 150 milljónum króna til að kaupa upplýsingar sem eiga að nýtast til að leggja mat á hvort Íslendingar hafi skotið undan skatti erlendis. Að lokum var sótt að Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra á ómaklegan hátt með ásökunum um að hann drægi lappir til að hylma yfir með einhverjum. Þessari aðför hefði getað verið stjórnað af almannatengli á vegum seljandans, að minnsta kosti mátti greina handbragð sem áður hefur dugað til að blása mál upp í fjölmiðlum. Við skulum vona að skattgreiðendur kaupi ekki köttinn í sekknum.