27.2.2015 20:10

Föstudagur 27. 02. 15

Vefblaðið Kjarninn hefur haft horn í síðu Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur síðan hún var skipuð lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og hafa verið gefnar skýringar á því sem ég ætla ekki að tíunda hér. Einhver lak í dag úrskurði Persónuverndar um málefni sem varða embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum í tíð Sigríðar Bjarkar til Kjarnans líklega í sama mund og hún fékk hann sjálf og innanríkisráðuneytið sem ætlar að taka sér tíma til að grandskoða skjalið sem er 12 bls. Á Kjarnanum tók menn ekki langan tíma að hrapa að niðurstöðu. Ákveðið var að Sigríður Björk væri lögbrótur og hið einkennilega er að aðrir fjölmiðlar átu þetta eftir Kjarnanum að því virðist án þess að kynna sér málið. Á mbl.is voru svo tíundaðar lagagreinar og mátti ætla að Sigríður Björk hefði brotið þær í embættisfærslu sinni þótt í úrskurðinum sé bent á þær sem viðmið.

Í úrskurðinum er farið orðum um heimild lögreglustjórans til að bregðast við ósk aðstoðarmannsins og má skilja ummælin á þann veg að lögreglustjórinn hefði átt að kanna hvort aðstoðarmaðurinn hefði haft heimild til að biðja um gögnin vegna afgreiðslu máls í ráðuneytinu. Ekki eru gefnar leiðbeiningar um hvernig lögreglustjórinn átti að snúa sér við þá athugun.

Þá er fjallað um að stjórnvöld skuli miðla upplýsingum eftir dulkóðuðum leiðum. Varla er það lögbrot hjá lögreglustjóra á Suðurnesjum að slíkar boðleiðir hafi ekki verið fyrir hendi á milli embættis hans og innanríkisráðuneytisins? Ábending Persónuverndar um þetta er til þeirra sem sjá um tæknilegan umbúnað þessara boðleiða.

Embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og innanríkisráðuneytið eiga sameiginleg ámæli fyrir að skrá ekki þessi samskipti í málaskrá og leiðbeinir persónuvernd í hvaða tilvikum beri að gæta slíkrar skráningar.

Athyglisvert er að sjá þann mun sem gerður er á miðlun upplýsinga frá útlendingastofnun annars vegar og lögreglustjóraembættinu hins vegar til innanríkisráðuneytisins um þetta mál. Er sá kafli úrskurðarins sérstakt athugunarefni.

Sigríður Björk svaraði spurningum fréttamanns sjónvarps og sagðist ekki telja ástæðu til að hún viki úr embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa úrskurðar. Undir þá skoðun hennar skal tekið.