1.2.2015 19:10

Sunnudagur 01. 02. 15

Á vefsíðu MMR segir 30. janúar um niðurstöður nýrrar könnunar:

„Flestir töldu að Samfylkingin væri best til þess fallin að leiða samninga um aðild að Evrópusambandinu. Af þeim sem tóku afstöðu töldu 39,0% töldu að Samfylkingin væri best til þess fallin að leiða samninga um aðilda að Evrópusambandinu.“

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hreykir sér af þessu á Facebook-síðu sinni laugardaginn 31. janúar. Össur beitti sér hins vegar fyrir því í janúar 2013 að viðræðunum við ESB var hætt enda lá fyrir ágreiningur í sjávarútvegsmálum af því að fulltrúar ESB neituðu að láta íslensk stjórnvöld hafa nauðsynleg svör um álit þeirra á stefnu Íslands og skilyrðum.

Það er dæmigert um þennan þátt ESB-umræðnanna, viðræður eða ekki viðræður, að forðast er að ræða efni málsins og aðeins litið á umbúðirnar.  Spurningin sem MMR lagði fyrir er í raun marklaus. Áður en viðræðum yrði fram haldið væri óhjákvæmilegt að brjóta ágreininginn við ESB í sjávarútvegsmálum til mergjar og upplýsa þjóðina um á hverju strandaði hjá kappanum Össuri. Látið var í veðri vaka að þar hefði deila um makríl ráðið úrslitum en í hinu orðinu sagt að makríldeilan og viðræðurnar væru tvö aðskilin mál. Að sjálfsögðu brotnaði á kröfu alþingis um að ráðin yfir 200 mílunum  yrðu í íslenskum höndum. Eigi að skapa brú til ESB þarf nýja umsókn með nýjum skilyrðum.

Á Facebook-síðu sinni spáir Össur að afturköllun ESB-umsóknarinnar muni „kljúfa Sjálfstæðisflokkinn“. Hvar hefur maðurinn verið? Hefur hann ekki fylgst með Viðreisnar-bröltinu? Varla gera þeir sem fyrir því standa kröfu til að teljast sjálfstæðismenn? Þá segir Össur:

Stjórnin sem við tekur [að loknum kosningum] mun láta þjóðina kjósa um framhald viðræðna innan 4 mánaða frá kosningum, og síðan aftur um fullgerðan samning.“

Merkilegt er að Össur tekur ekki undir sjónarmið þeirra sem vilja að afturköllun umsóknar sé borin undir þjóðina. Orð hans má hins vegar skilja sem svo að fjóra mánuði þurfi að lokinni stjórnarmyndun til að undirbúa nýja umsókn og leggja hana fyrir þjóðina. Hann er nú talsmaður þess að kosið sé tvisvar fyrst um umsókn og viðræður og síðan um lyktir viðræðna. Hann hefur fallist á sjónarmið Sjálfstæðisflokksins frá landsfundi hans snemma árs 2009. Skyldi hann búa sig undir stjórn með Sjálfstæðisflokknum að loknum kosningum?