14.2.2015 19:20

Laugardagur 14. 02. 15

Í dag var útvarpað Laugardagsviðtalinu á rás 1 þar sem Egill Helgason ræddi við mig í klukkustund um hernaðarátökin í Úkraínu og áhrif þeirra. Þátturinn verður aftur á dagskrá klukkan 23.00 í kvöld. Viðbrögðin hafa verið á þann veg að meira er hlustað á þennan þátt en ég vænti.

Þess var minnst í Seltjarnarneskirkju klukkan 15.00 í dag að tónlistarskóli bæjarins var stofnaður fyrir 40 árum, Kári Húnfjörð Einarsson skólastjóri og kennarar við skólann höfðu undirbúið tæplega klukkustundar dagskrá þar sem 210 nemendur skólans komu fram. Var skipulag allt til fyrirmyndar ekki síður en tónlistarflutningur nemendanna fyrir troðfullu húsi. Var þetta vel heppnuð og ánægjuleg stund.

Í dag féll einn maður í skotárás í Kaupmannahöfn og þrír lögreglumenn særðust. Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra segir allt benda til að um „pólitískt morð og þar með hryðjuverk“ hafi verið að ræða. Lögreglan í Kaupmannahöfn leitaði árásarmanna þegar þetta er skrifað. Þeir voru með hríðskotabyssur og skutu allt að 40 skotum á þátttakendur í umræðufundi í menningarhúsinu  Krudttønden á Østerbro.

Talið er að ætlunin hafi verið að myrða sænska teiknarann Lars Vilks sem teiknaði á sínum tíma skopmynd af Múhameð spámanni. Lars Erslev Andersen, fræðimaður við Dansk Institut for Internationale Studier, segir við Berlingske Tidende að árásin minni að nokkru á árásina á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo í París hinn 7. janúar þar sem 12 manns féllu.

Hryðjuverkaárásin í Kaupamannahöfn er, sé ofangreint rétt, enn ein aðförin að málfrelsi og sýnir að í því efni virða menn engin landamæri heldur reyna að hafa uppi á þeim sem taldir eru réttdræpir að mati íslamista. 

Það er sérkennilegt að þeir sem sakfelldir eru í Al Thani-málinu skuli eltir af fréttamönnum með spurngingum um hvort þeir ætli að skjóta dómi hæstaréttar þegar fyrir liggur að það breytir engu um refsingu þeirra eða fullnustu hennar.