20.2.2015 19:15

Föstudagur 20. 02. 15

Í dag kom viðtal mitt við Eyjólf Pálsson í Epal inn á netið en það birtist á ÍNN miðvikudaginn 11. febrúar. Má sjá það hér.

Nokkrar umræður eru um það hér á landi hvort atvinnurekendur eigi að hafa aðgang að símtalaskrám starfsmanna sem tala í síma sem vinnuveitandi þeirra greiðir. Einhverjir telja þetta aðför að friðhelgi þeirra sem eiga í hlut og hefur verið leitað álits hjá persónuvernd.

Fyrir nokkru kvað Hæstiréttur Frakklands upp þann dóm að hver sá sem fær farsíma frá vinnuveitanda sínum verði að sætta sig við að vinnuveitandinn geti lesið smáskilaboð símnotandans. Dómararnir veita vinnuveitanda rétt til að lesa smáskilaboð starfsmanns sem send eru úr farsíma sem fylgir starfinu. Dómararnir segja að telja verði að skilaboð sem send séu úr slíkum síma eða tekið á móti þar séu „starfstengd“.

Vinnuveitendur hafa „rétt til að kynna sér efni skilaboða í síma vegna starfs að viðstöddum starfsmanninum nema skilaboðin beri greinilega með sér að þau snerti einkamálefni,“ segir í dóminum.

Áður hafa svipaðir dómar fallið varðandi tölvur vegna starfs og bréf send úr starfsstöð.

Við skýringu á dóminum hefur komið fram að starfsmenn geti komið í veg fyrir að rýnt sé í einkagögn með því að merkja þau rækilega sem einkamál með orðunum personnel, perso eða privé.

Af þessu má sjá að í Frakklandi getur vinnuveitandi sem greiðir síma starfsmanns gengið mun nær notkun hans á símanum heldur en að fá lista yfir símtöl og við hverja er talað úr honum. Þeim rétti að greitt sé fyrir og af síma fyrir einhvern vegna starfa hans hefur einnig skyldur í för með sér. Enginn er neyddur til þess að tala öll símtöl í tæki sem vinnuveitandi hans á og kostar.