19.2.2015 19:15

Fimmtudagur 19. 02. 15

Þáttur minn á ÍNN frá miðvikudeginum 18. febrúar þar sem ég ræddi við Ernu Bjarnadóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, er kominn á netið og má sjá hann hér. 

Erna segir meðal annars frá því að það hafi skapað vandræði í samskipti við norðurskautsríki utan ESB, Bandaríkin, Kanada og Rússland, að Ísland sé umsóknarríki. Viðmælendur frá þessum löndum líta á skrár sem segja Ísland í umsóknarferli gagnvart ESB en vita ekki að umsóknin er dauð og hvorugur aðili hefur neinn áhuga á að ræða hana.

Það er fráleitt að losna ekki við þetta lík úr lestinni. Það er dæmigert fyrir málefnafátækt stjórnarandstöðunnar að hún haldi dauðahaldi í þetta dauða mál og Össur Skarphéðinsson segi að það rigni eldi og brennisteini verði málið sett á dagskrá alþingis. Aumlegri stjórnarandstaða hefur ekki verið hér á landi um langan aldur.

Þá er stórundarlegt að þeir sem kenna sig við öfugmælið Já Ísland vilji halda lífi í þessari umsóknardruslu í stað þess að berjast fyrir nýrri umsókn sem reist er á réttum skilningi á aðlögunarkröfum ESB og stutt samningsmarkmiðum sem kunna að leiða til sameiginlegrar niðurstöðu ESB og Íslands.

Að ESB-aðildarsinnar bindi trúss sitt við hið dauða plagg og geri sér vonir um að unnt sé að blása lífi í það er ekki til marks um neitt annað en fráleitan málatilbúnað þeirra frá upphafi þessa máls alls árið 2009.

Ein af röksemdafærslum sumra ESB-aðildarsinna hefur verið að Ísland sé hætt að skipta máli hernaðarlega vegna friðsemdar Rússa á N-Atlantshafi, þar með skipti NATO ekki lengur sama máli og áður og þess vegna verði að ganga í ESB til að forðast einangrun. Meira að segja þessi röksemd dugar ekki lengur.