12.2.2015 21:10

Fimmtudagur 12. 02. 15

Þriðjudaginn 10. febrúar birtist grein í Morgunblaðinu þar sem velt var fyrir sér hlutverki embættis sérstaks saksóknara og það meðal annars nefnt til sögunnar að ég hafi sagt  sem dómsmálaráðherra að hlutverk embættisins væri að sefa reiði borgaranna og þessi orð komi fram í athugasemdum við frumvarp til laga um embættið. Greinarhöfundur spyr hvort „búið sé að sefa reiðina eða þurfum við fleiri ár og milljarða til þess?“ Hann spyr einnig: „Hvernig samrýmist það réttarríkinu að rannsaka mál og saksækja menn með reiðina að grundvelli?“ Vill greinarhöfundur ekki að embættið fái auknar fjárveitingar til að ljúka málum sem þar eru til rannsóknar.

Ræðuna sem þarna er vitnað til flutti ég í Háskóla Íslands 17. október 2008 og má lesa hana í heild hér á síðunni. Þar sagði ég meðal annars:

„Rannsókn flókinna efnahagsbrota, saksókn og dómsmeðferð er tímafrek og kostnaðarsöm í samanburði við önnur sakamál. Alrangt er hins vegar, að slíkar rannsóknir auki aðeins kostnað ríkissjóðs. Uppljóstrun skatta- og efnahagsbrota leiðir oft til þess, að skatttekjur ríkissjóðs aukast mikið, auk þess sem ólöglegur ávinningur efnahagsbrota getur sætt upptöku. Skilvirk og árangursrík rannsókn og dómsmeðferð brota, sem kunna að koma í ljós við fall bankanna, ætti að sefa reiði, efla réttlætiskennd og auka trú borgaranna á réttarríkið auk þess að gegna varnaðar- og uppeldishlutverki til framtíðar. Þá er skilvirk og réttlát meðferð slíkra mála til þess fallin að efla lífsnauðsynlegt traust umheimsins í garð íslensks fjármálakerfis. Á þessari stundu er ekki unnt að fullyrða neitt um það, hvort og hvernig fall bankanna kemur inn á borð þeirra, sem gæta laga og réttar.“

Í dag felldi hæstiréttur dóm í Al Thani-málinu svonefnda. Ég veit ekki hvort dómurinn sefi reiði en dómararnir fimm segja:

„Þessi brot voru stór­um al­var­legri en nokk­ur dæmi verða fund­in um í ís­lenskri dóma­framkvæmd varðandi efna­hags­brot.  Kjarn­inn í hátt­semi ákærðu fólst í þeim brot­um, sem III. kafli ákær­unn­ar snýr að, en þau voru þaul­skipu­lögð, drýgð af ein­beitt­um ásetn­ingi og eindæma ófyr­ir­leitni og skeyt­ing­ar­leysi. Öll voru brot­in fram­in í sam­verknaði og beind­ust að mik­il­væg­um hags­mun­um.“

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir dóminn leggja línur í öðrum málum hjá embættinu. Að sjálfsögðu ber að gera því kleift að ljúka þeim málum.