6.2.2015 22:00

Föstudagur 06. 02. 14

Á Varðbergsfundinum með Ólöfu Nordal innanríkisráðherra komu fram sterkar efasemdaraddir um aðild Íslands að Schengen-samstarfinu. Þeir sem þannig töluðu eru þeirrar skoðunar að með úrsögn úr samstarfinu megi stórefla öyggi landsmanna og hindra skipulagða glæpastarfsemi eða hryðjuverk. Ólöf tók ekki undir þessa skoðun frekar en forverar hennar í embætti dóms- eða innanríkisráðherra frá því að Ísland varð eitt Schengen-ríkjanna árið 1999.

Ólöf Nordal færði skýr rök fyrir afstöðu sinni. Ólíklegt er að þau hríni á gagnrýnendur,  óvildin í garð Schengen-aðildarinnar er fremur reist á tilfinningu en þekkingu. Vissulega mátti deila um inngönguna í Schengen en eftir hana er óskynsamlegt að bíta úrsögn í sig og halda hana stórauka öryggi landsmanna. Það er hreinn misskilningur eins og sú fullyrðing Halldórs Jónssonar, verkfræðings í Kópavogi, að ég hafi barist fyrir Schengen-aðild árið 1999 með Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra. Þá var ég menntamálaráðherra og lét mér Schengen-málið í tiltölulega léttu rúmi liggja en leyfði þeim Halldóri, Þorsteini Pálssyni dómsmálaráðherra og Davíð Oddssyni forsætisráðherra að leiða málið.

Eftir að ég varð dómsmálaráðherra árið 2003 kom það í minn hlut að gæta hagsmuna Íslands innan Schengen-samstarfsins. Lagði ég mig fram um að átta mig sem best á öllum þáttum málsins og skrifaði meðal annars fræðilega ritgerð um það í bók sem kom út á vegum Háskólans á Bifröst.  Ritgerðin er einnig fylgiskjal með skýrslu um tengsl Íslands og Evrópusambandsins sem kom út í mars árið 2007. Síðan ritaði ég greinaflokk um Schengen-aðildina á Evrópuvaktina.  Greinarnar fimm má lesa hér á síðunni, sjá september 2012 í flokknum Ræður og greinar. Þessar athugunar mínar leiddu til eindregins stuðnings míns við aðild Íslands að Schengen-samstarfinu.

Ég tel mig hafa fullgild rök fyrir Schengen-afstöðu minni. Mér þykir miður að lesa málflutning á borð við þann sem Halldór Jónsson flytur. Hann er innistæðulaus.

Birgitta Jónsdóttir alþingismaður hefur lýst andstöðu sinni við að hér á landi verði veitt heimild til forvirkra rannsóknaraðgerða í sérstökum tilvikum með leyfi dómara og undir eftirliti nefndar á vegum alþingis. Það kemur ekki á óvart. Þingmaðurinn vann með Julian Assange að gera Ísland að griðastað í tölvuheiminum. Áformin voru vanhugsuð frá grunni og koma aldrei til framkvæmda.  Flest önnur pólitísk áhugamál hennar eru sama marki brennd.