17.2.2015 18:30

Þriðjudagur 17. 02. 15

Samskipti stjórnvalda Grikklands og annarra evru-ríkja versnuðu mánudaginn 16. febrúar þegar fundur evru-ráðherrahópsins reyndist árangurslaus. Fjármálaráðherra Grikkja er sagður bera sökina. Hann hafi komið á fundinn án þess að hafa nokkuð haldfast fram að færa. Hér má lesa hvernig þýskur fréttaskýrandi lítur á málið.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands og leiðtogi Syriza, róttæka vinstri flokksins sem sigraði í þingkosningunum 25. janúar, sagði við þingflokk sinn að ekki yrði látið undan þrýstingi, Grikkir sætti sig ekki lengur við að land þeirra sé talið nýlenda úrhraka Evrópu. Hann sakaði „ákveðna hópa“ á evru-svæðinu um að vilja grafa undan stjórn sinni og sagði að Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, hefði misst stjórn á sér og látið niðrandi ummæli falla um Grikkland.

Á fundi evru-ráðherrahópsins mun Schäuble hvað eftir annað hafa sagt að Grikkir yrðu að hrökkva eða stökkva, hann hefði auk þess spurt í hæðnistón hvort Tsipras og hinn „frægi hagfræðingur“ í stóli fjármálaráðherra hans vissu hvað þeir vildu eða hvort þeir væru að gera hið rétta í þágu grísku þjóðarinnar.

Þessi skarpi tónn er í andstöðu við hið mjúka diplómatíska yfirbragð sem menn vilja að setji svip á samskiptin innan ESB, að minnsta kosti út á við.  Íslendingar hafa kynnst þessu yfirbragði. Á tíma ESB-ríkisstjórnarinnar hér á landi tóku ráðherrar og embættismenn þátt í þessum leik. Með sífelldri sjálfumgleði um hve viðræðurnar gengju vel var breitt yfir ágreining í sjávarútvegsmálum sem frysti viðræðurnar í raun. Leiddi það að lokum til þess að Össur Skarphéðinsson, ESB-umsóknarráðherra, sló viðræðunum á frest í janúar 2013. Þær hefjast ekki að nýju nema íslensk stjórnvöld slái af kröfum sínum í sjávarútvegsmálum. Vill einhver stjórnmálaflokkur gera það?