25.2.2015 20:10

Miðvikudagur 25. 02. 15

Í dag ræddi ég við Hjalta Pálsson frá Hofi í Hjaltadal í þætti mínum á ÍNN en hann er ritstjóri Byggðasögu Skagafjarðar. Sjöunda bindi byggðasögunnar kom út á síðasta ári og fjallar það um Hofshrepp. Ritun og útgáfa byggðasögunnar er mikið stórvirki með sveitarfélagið Skagafjörð og Akrahrepp sem bakhjarla en Sögufélag Skagfirðinga er útgefandi. Samtal okkar má sjá kl. 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Ég hafði ekki fyrr lokið við að skrifa færslu hér í dagbókina í gær en sagt var frá nýju hættumati greiningardeildar ríkislögreglustjóra þar sem talið er að líkur á hryðjuverkum hér á landi fari vaxandi.

Þá er einnig vakið máls á nauðsyn þess að lögregla fái frekari heimildir til rannsókna, til að stunda forvirkar rannsóknir, að grunsemdir um að einhver kunni að fremja voðaverk geti leitt til þess að lögregla grípi til aðgerða.

Sigmar Guðmundsson lagði út af ummælum um forvirkar rannsóknarheimildir í Kastljósi með því að vísa til hinna ströngu laga sem Bandaríkjamenn settu eftir 11. september 2001. Dregin er upp sú mynd af því sem þar er til hræða fólk við aukin völd til lögreglu. Sambærilegar umræður hafa staðið í Frakklandi eftir hryðjuverkaárásirnar 7. til 9. janúar.

Sigmar spurði Ásgeir Karlsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra hvers vegna tilmæli hennar um auknar hefðu ekki náð fram að ganga. Ásgeir gat að sjálfsögðu ekki svarað fyrir stjórnmálamenn en þeir ræða gjarnan málið án þess að setja fram fastmótaðar tillögur.