2.2.2015 20:00

Mánudaginn 02. 02. 15

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrv. fjármálaráðherra, grípur til fúkyrða þegar rætt er við hann un skjölin sem Víglundur Þorsteinsson lögfræðingur hefur dregið út úr möppum opinberra aðila og sýna vinnubrögðin sem stunduð voru undir pólitískri forystu Steingríms J. á útmánuðum 2009 þegar hann bjó um sig í fjármálaráðuneytinu. Hann lagðist þar flatur fyrir erlendum kröfuhöfum og talaði um „glæsilega niðurstöðu“ Svavars félaga síns Gestssonar í Icesave-málinu þegar allt annað var á döfinni sé tekið mið af íslenskum hagsmunum.

Meðal þeirra sem hafa tekið að sér skjalda Steingrím J. í þessu máli eru ritstjórar vefblaðsins Kjarnans. Þeir hafa birt nafnlausa dálka til að gera lítið úr málatilbúnaði Víglundar og veltu fyrir sér sunnudaginn 1. febrúar hvort Sigmundur Davíð ætlaði að „láta rannsaka Ásmund Einar, þingmann, aðstoðarmann og trúnaðarmann sinn, fyrir að hafa afhent, í samfloti við vonda vinstraliðið, kröfuhöfum banka fulla af peningum sem með réttu ættu að vera eign íslenskra heimilia og fyrirtækja?“

Rökin að baki þessari spurningu eru þau að Ásmundur Einar Daðason þingmaður hafi í desember 2009, þegar hann var enn í flokki með Steingrími J., verið í meirihluta fjárlaganefndar sem studdi frumvarp sem heimilaði Steingrími J. að „ staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í bönkunum þremur með samningum við kröfuhafanna“.

Í hinni nafnlausu hugleiðingu Kjarnans segir:

„Ef til stendur að rannsaka tilfærslu á eignarhlutum í nýju bönkunum til kröfuhafa þá hlýtur sú rannsókn að ná til þeirra þingmanna sem lögðu fram frumvarpið sem heimilaði tilfærsluna, ekki bara til ráðherrans sem framkvæmdi hana.“

Þetta er sérkennilega veik málsvörn fyrir Steingrím J.. Hún felst í því að aðrir eigi á hættu að lenda í svaðinu með honum. Sá er hins vegar munurinn að Steingrímur J. bar ráðherraábyrgð á þessum tíma og hvort sem það er gert með „sorg í hjarta“ eða ekki verður stundum að láta menn horfast í augu við þá ábyrgð. Ásmundur Einar axlar hana ekki með Steingrími J. hvað sem spunaliðar Kjarnans segja.