9.2.2015 21:40

Mánudagur 09. 02. 15

Að halda því fram að Krímverjar hafi samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að land þeirra yrði hluti af Rússlandi hinn 16. mars 2014 felur í sér svo gagnrýnislaut mat á hvernig standa beri að slíkum atkvæðagreiðslum að furðu sætir. Einu erlendu alþjóðlegu „eftirlitsmennirnir“ á svæðinu voru fulltrúar nokkurra öfgasinnaðra hægriflokka í Evrópu. Til atkvæðagreiðslunnar þar sem 96,6% sögðu já við innlimun í Rússland var efnt eftir innrás manna án einkennismerkja á Krímskaga. Tveimur mánuðum síðar viðurkenndi sjálfur Vladimír Pútín að þarna hefðu rússneskir hermenn verið á ferð.

Þá er bent á Kósóvó til afsökunar á framgöngu Rússa gagnvart Úkraínumönnum. Hafi Kósóvó átt rétt á sjálfstæði frá Serbíu sé ekki unnt að neita Krím um að segja skilið við Úkraínu og gerast hluti Rússlands. Gagnvart þessari röksemd er bent á að alls ekki sé unnt að bera þetta tvennt saman. Stríð hafi verið háð áður en Kósóvó rauf sambandið við Serbíu og höfðu 10.000 manns fallið í átökunum. NATO hafði látið að sér kveða og Kósóvó, gamalt hérað í Serbíu var sett undir Sameinuðu þjóðirnar árið 1999. Það var ekki fyrr en í febrúar 2008, eftir níu ára undirbúning sem Kósóvó lýsti yfir sjálfstæði sínu. Ekkert sambærilegt gerðist á Krím, Rússavinir sættu engum ofsóknum. Málið var leitt til lykta á einum mánuði.

Um leið og á þetta er bent skal vakin athygli á því sem ég tók sem saman úr Frankfurter Allgemeine Zeitung í dag og lesa má á Evrópuvaktinni. Þetta minnir mig á umræður um áróðursstríðið í kalda stríðinu þegar tekist var á um stýriflaugarnar í Evrópu á fyrri hluta níunda áratugarins. Þá töldu margir að NATO og Bandaríkjamenn væru að tapa áróðursstríðinu við Sovétmenn og Varsjárbandalagið sem höfðu friðarhreyfingar á sínum snærum í Vestur-Evrópu, ekki síst Vestur-Þýskalandi

Caspar Weinberger, varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Ronalds Reagans forseta, sendi  þá frá sér bækling með nákvæmum upplýsingum um sovéskan vígbúnað og reyndust þær mjög gagnlegar fyrir þá sem vildu halda fram hinum vestræna málstað sem sigraði að lokum. Þá var sá mikli munur á stöðunni frá því að er í dag að Rússland var lokað. Nú geta annarra þjóða menn hins vegar miðlað upplýsingum þangað og háð áróðursstríð innan landamæra Rússlands sé vilji til þess.