1.4.2015 21:50

Miðvikudagur 01. 04. 15

Í dag ræði ég á ÍNN við Véstein Ólason, prófessor emeritus og fyrrverandi forstöðumann Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, um  tveggja binda verk, Eddukvæði, sem hið Íslenska fornritafélag gaf út á síðasta ári. Vésteinn og Jónas heitinn Kristjánsson sem einnig var forstöðumaður Árnastofununar önnuðust útgáfuna, Vésteinn ritaði um 400 bls. formála en Jónas annaðist frágang á kvæðum og orðskýringar. Næst má sjá þáttinn klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur skilað skýrslu á ensku sem samin er að fyrirlagi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Hún snýst um að þrengt skuli að heimild viðskiptabanka til að auka peningamagn í umferð, það er stemma stigu við því sem á íslensku er nefnt brotaforðakerfi, á ensku heitir þetta fractional reserve banking  og er skammstafað FRB.

Hugtakið er til umræðu um þessar mundir vegna bankakreppunnar í Andorra. Þar eru bankar 17 til 20 sinnum stærri en verg landsframleiða (VLF) en voru 10 sinnum stærri hér árið 2008.

Á vefsíðu tímaritsins Forbes er grein eftir Tim Worstall  þar sem hann segir að áhugamenn um brotaforðakerfi ættu að fylgjast náið með framvindu mála í Andorra til að átta sig á afleiðingum brotaforðakerfsins og hvernig tekið er á hruni banka í landi án seðlabanka – sjá hér.