24.4.2015 22:50

Föstudagur 24. 04. 14

Í húskarlahorni Fréttablaðsins birtist í dag:

„Sú fyrsta gleymdist

Þá fékk Hanna Birna Kristjánsdóttir viðurkenningu sem fyrsta konan til að gegna embætti innanríkisráðherra. Það er einnig spaugilegt í ljósi þess að embættið er nýtt, aðeins einn hefur sinnt því áður en það var Ögmundur Jónasson. Embættið hét áður dómsmálaráðherra og því embætti hafa mýmargir karlmenn sinnt. Aðeins ein kona gegndi embætti dómsmálaráðherra. Það var Ragna Árnadóttir í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Ragna gleymdist hins vegar og fékk enga viðurkenningu.

fanney@frettabladid.is“

Höfundur textans er Fanney Birna Jónsdóttir, fastur penni Fréttablaðsins, sem meðal annars skrifar leiðaraígildi blaðsins. Hið hlálega við textann hér að ofan er að höfundurinn veit hvorki að Auður Auðuns varð dómsmálaráðherra árið 1970 né Sólveig Pétursdóttir árið 1999.

Vanþekking setur svip á þessi skrif fasta pennans en einnig óvild í garð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og er það ekki í fyrsta sinn sem hún birtist í skrifum Fanneyjar Birnu.

Vinnubrögð á Fréttablaðinu hafa oft verið umdeilanleg. Er skemmst að minnast árásarinnar á hæstarétt vegna Aurum-málsins þar sem hagsmunir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar eru í húfi. Útgefandi og aðalritstjóri blaðsins, Kristín Þorsteinsdóttir, hafði í hótunum færu dómarar ekki að kröfu blaðsins um að binda enda á málið. Nú hefur hið gagnstæða gerst. Hvernig skyldi aðalritstjórinn standa að framkvæmd hótunarinnar?