29.4.2015 19:30

Miðvikudagur 29. 04. 15

Í dag ræddi ég við Arnar Þór Jónsson, lektor í lögfræði, í þætti mínum á ÍNN og verður hann frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld og síðan endursýndur á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun. Arnar Þór hefur verið beinskeyttur og rökfastur í gagnrýni sinni á ýmislegt sem snertir lögmenn og það sem sagt er um dómstólana,

Eins og sagt var frá hér í gær gagnrýndi Kolbeinn Óttarsson Proppé, blaðamaður á Fréttablaðinu, það sem Jón Ásgeir Jóhannesson, hæstráðandi á blaðinu, sagði um niðurstöðu hæstaréttar sem vísaði Aurum-málinu, þar sem Jón Ásgeir er einn sakborninga, aftur til meðferðar í héraðsdómi. Kolbeinn sagði Jón Ásgeir fara með rangt mál. Hæstiréttur hefði ekki fært þau rök fyrir niðurstöðu sinni að Sverrir Ólafsson meðdómari í Aurum-málinu væri bróðir Ólafs Ólafssonar sem sakfelldur var í Al Thani-málinu. Málinu hefði verið vísað að nýju í héraðsdóm vegna ummæla Sverris um sérstakan saksóknara. Gaf Kolbeinn til kynna að Jón Ásgeir væri haldinn vænisýki,

Jón Ásgeir svarar fyrir sig í dag með grein á vefsíðunni visir.is og má lesa hana hér. Í greininni segir Jón Ásgeir að Kolbeinn stundi „yfirborðsblaðamennsku“ hann skrifi „fréttir án þess að reyna að gægjast undir yfirborðið til að koma auga á kjarna málsins“. Þetta er harkalega sagt um Kolbein sem hvað eftir annað er höfundur forsíðufrétta Fréttablaðsins og var nýlega ráðinn þangað aftur eftir störf sem blaðafulltrúi um nokkurt skeið, meðal annars hjá Strætó.

Eftir að hafa ráðist á Kolbein heldur Jón Ásgeir fast við að sjálfur hafi hann rétt fyrir sér um túlkunina á dómi hæstaréttar. Túlkun Jóns Ásgeirs er í anda þeirra hártogana sem hann stundar jafnan til að gera eigin hlut sem bestan. Greinar hans sjálfum sér til varnar eru ótalmargar og í þeim felst jafnan megn fyrirlitning á þeim sem honum eru ósammála. Að hann skuli nú telja sér til framdráttar að deila við dómara hæstaréttar af því að hann viti betur en þeir hvers vegna dómur þeirra féll á þann veg sem hann gerði sýnir aðeins ógöngur hans.