7.4.2015 19:00

Þriðjudagur 07. 04. 15

Nýlega lét Sigurjón Magnús Egilsson af störfum sem ritstjóri og helsti leiðarahöfundur Fréttablaðsins. Hann sagðist þurfa tóm til að undirbúa vikulegan útvarpsþátt á Bylgjunni. Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrv. blaðafulltrúi Baugs, hefur tekið til við að rita leiðara í Fréttablaðið. Hún varð útgefandi þess í júlí 2014. Hafa að minnsta kosti þrír ritstjórar hætt síðan á blaðinu.

Kristín ritaði leiðara í Fréttablaðið laugardaginn 4. apríl, framlag til varnar sakborningum í Aurum-málinu svonefnda. Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrv. forstjóri Baugs, og valdamaður að baki Fréttablaðinu er í hópi þeirra. Í leiðaranum er áréttaður málstaður sakborninga vegna þess að málið er fyrir hæstarétti. Fer útgefandi blaðsins þá óvenjulegu leið að vitna í samskipti stjórnenda Fréttblaðsins við Guðjón St. Marteinsson héraðsdómara sem sendi Fréttablaðinu grein hinn 10. júní 2014 en afturkallaði hana. Þá er einnig birt úr tölvubréfi héraðsdómarans. Í leiðaranum segir:

„Kunnugir segja það einsdæmi að dómari hafi haldið því fram opinberlega að saksóknari hafi logið um atriði er varðar meðferðina. Hæstiréttur hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu ástæður til að leiða frekar í ljós hver segi satt og hver ósatt. Varla getur það verið boðleg niðurstaða út frá sanngirnis- og réttaröryggissjónarmiðum? […]

Það er nauðsynlegt að upplýsa hvort sérstakur saksóknari laug þegar hann sagðist ekki hafa vitað um tengsl Sverris og Ólafs Ólafssona. Niðurstaða Hæstaréttar er óboðleg, og má ekki verða endahnútur þessa máls. Nú taka fjölmiðlar við.“

Hér er Fréttablaðinu beitt af útgefanda þess til að vega að trúverðugleika sérstaks saksóknara og vanvirða hæstarétt til að bæta málstað sakborninga, þeirra á meðal Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.

Tveir bræður koma við þessa sögu og situr annar þeirra, Ólafur, nú fangi á Kvíabryggju vegna dóms í Al Thani-málinu svonefnda. Eiginkona Ólafs vegur að hæstarétti í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag og er tilvitnun úr henni slegið upp yfir þvera forsíðu blaðsins.

Skyldi Sigurjón Magnús Egilsson hafa verið látinn víkja af því að honum var ekki treyst til að beita Fréttblaðinu í þágu Jóns Ásgeirs og félaga í hópi sakborninga? Dagskipun útgefandans er skýr: „Nú taka fjölmiðlar við.“ Jón Ásgeir og liðsmenn hans beittu þeim í Baugsmálinu – nú skal saksóknara og dómurum sýnt í tvo heimana.