4.4.2015 22:10

Laugardagur 04. o4. 15

Undarlegt er ef forsætisráðherra hefur í huga að nýtt hús rísi þar sem Valhöll stóð á Þingvöllum. Líkur eru á að þarna sigi land enn frekar og erfiðleikum hefur verið háð að búa þannig um rotþær að ekki verði skaði á vatninu. Eitt er að reisa nýtt hús í stað Valhallar, annað að velja því stað.

Nýlega var sagt frá ákvörðun Þingvallanefndar um að ráðast í frekari mannvirkjagerð á Hakinu þar sem fræðslumiðstöð var opnuð árið 2002. Síðan hefur fjöldi ferðamanna margfaldast og allt álag á Þingvelli stóraukist. Við þessu þarf að bregðast en ekki með því að stuðla að aukinni umferð bifreiða inn í þinghelgina eins og yrði með því að reisa nýja Valhöll á sama stað og hin gamla stóð.

Ég man ekki hvað KPMG sagði í aðdraganda hrunsins um stöðu og framtíð bankanna. Nú hafa sérfræðingar á vegum KPMG setið yfir „sviðsmyndum“ um losun gjaldeyrishafta. Niðurstaðan er að ákvörðun um inngöngu í Evrópusambandið með upptöku evru síðar feli í sér heppilegra umhverfi til losunar gjaldeyrishafta heldur en afnám hafta við núverandi aðstæður með krónu.

Forsendur KPMG eru mér ókunnar. Fyrirtækið kynnir sig á þennan hátt á vefsíðu sinni:

„Megintilgangur KPMG á Íslandi veitir fyrirtækjum og einstaklingum á Íslandi sérhæfða þjónustu á sviði endurskoðunar og ráðgjafar sem grundvallast á áreiðanleika, ítrustu fagmennsku og öryggi. Vel þjálfað starfsfólk er opið fyrir innlendum og erlendum straumum nýrrar þekkingar og byggir allt sitt starf á að viðskiptavinurinn sé í fyrirrúmi.“

Spurning er hvort KPMG hafi lagt mat á hvenær skuli hefja viðræður við ESB að nýju og á hvaða grunni miðað við slit þeirra sem hófust sumarið 2009. Var það hluti af sviðsmyndinni að falla þyrfti frá ráðum yfir 200 sjómílunum og fela ESB að ákveða aflamark og veiðiheimildir flökkustofna (síld, loðna og makríll).