18.4.2015 17:15

Laugardagur 18. 04. 15

Í dag var opnuð ný grunnsýning í Safnahúsinu við Hverfisgötu sem ber heitið Sjónarhorn, ferðalag um íslenskan myndheim. Markús Þór Andrésson er sýningarstjóri. Hann hefur tekið saman efni úr íslenskri listasögu og sjónrænum menningararfi. Að sýningunni standa höfuðsöfnin þrjú, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands, ásamt Þjóðskjalasafni Íslands, Landsbókasafni- Háskólabókasafni og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Nú eru 15 ár frá því að hinu glæsilega húsi við Hverfisgötu var fengið hlutverk þjóðmenningarhúss undir forsjá forsætisráðuneytisins.  Flutti ég meðal annars ræðu af því tilefni 20. apríl árið 2000 og má lesa hana hér.

Á vefsíðu Þjóðminjasafns segir Jóhanna Bergmann:

„Þjóðmenningarhúsið var starfrækt sem sjálfstæð stofnun til 1. júní 2013 þegar Þjóðminjasafn Íslands tók við starfseminni. Á þeim rúmlega 13 árum sem Þjóðmenningarhúsið starfaði voru settar upp hátt í hundrað sýningar innan veggja þess og ótal tónleikar, ráðstefnur, fundir, móttökur og aðrir viðburðir fóru þar fram. Þúsundir skólabarna á öllum aldri lögðu leið sína í húsið í fylgd kennara sinna að kynnast nánar því fjölbreytta efni sem fjallað var um á sýningum í húsinu. Heillandi heimur handritanna, á sýningu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum frá hausti 2002, laðaði jafnt og þétt að bæði nemendur og ferðamenn.“

Frá og með sumardegi fyrsta árið 2014 hefur húsið heitað Safnahúsið. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður hefur verið drifkrafturinn að baki hinu mikla átaki að sameina krafta manna í sex sjálfstæðum stofnunum til að leggja efni í sýninguna sem var opnuð í dag en um hana má fræðast á vefsíðu Safnahússins hér. 

Þegar Safnahúsið gekk fyrst í endurnýjun lífdaga sem sjálfstæð stofnun undir merkjum Þjóðmenningarhússins hefði verið ógjörningur að tengja það sem þá gerðist á þann hátt sem nú hefur verið gert gripum úr hinum sex söfnum. Á undanförnum 15 árum hafa æ fleiri áttað sig á hve einstakt er að nýta húsið til að kynna listsköpun og listfengi þjóðarinnar. Tekst það á frábæran hátt á þessari sýningu auk þess sem veitingasala og verslun fá betra rými en áður var og lestrarsalurinn nýtur sín betur sem slíkur en verið hefur, meðal annars með gömlu lesborðunum.