Fimmtudagur 09. 04. 15
Viðtal mitt við Lovísu Christiansen hjá Krýsuvíkursamtökunum er kominn á netið og má sjá hann hér.
Frakkar halda úti heimssjónvarpi TV5Monde sem sendir út efni á átta tungumálum til meira en 200 landa um heim allan að sögn stjórnenda stöðvarinnar. Að kvöldi miðvikudags 8. apríl brutust liðsmenn Íslamska ríkisins inn í netkerfi stöðvarinnar og lömuðu útsendinga hennar í 18 klukkustundir. „Þetta hefur aldrei gerst áður hjá okkur og aldrei áður í sögu sjónvarpsútsendinga,“ sagði Yves Bigiot útvarpsstjóri þegar hann lýsti árásinni.
Ráðist var á stöðina klukkan 20.00 (ísl. tíma) miðvikudaginn 8. apríl, samtímis voru settar tilkynningar á vefsíðu hennar á frönsku, ensku og arabísku með hótunum í garð Frakka. Jafnframt voru birt persónuskilríki og æviatriði ættmenna franskra hermanna sem sendir hafa verið til að berjast gegn Íslamska ríkinu. „Franskir hermenn haldið ykkur frá Íslamska ríkinu! Þið hafið tækifæri til að bjarga fjölskyldum ykkar, notfærið ykkur það!“ sagði í einni tilkynningunni og einnig „Kalífat netheima heldur áfram tölvustríði sínu við óvini Íslamska ríkisins.“
Stjórnendur TV5Monde náðu samfélagsmiðlum stöðvarinnar á sitt vald fjórum tímum eftir að inn á þá var ráðist en starfsemi stöðvarinnar komst ekki í eðlilegt horf fyrr en síðdegis fimmtudaginn 9. apríl. Frönsk yfirvöld sögðu um hryðjuverk að ræða og hvöttu stjórnendur fjölmiðla til að sýna árvekni, ekki væri unnt að útiloka frekari árásir. Sérfræðingar töldu að það hefði tekið marga menn nokkra mánuði að undirbúa árásina, þar væru ekki neinir viðvaningar á ferð. Þeir byggju þannig um hnúta að næstum ógjörningur væri að rekja slóð þeirra – hún kynni að liggja um heim allan.
Hér varð uppi fótur og fit í október 2014 þegar fréttir bárust um að í september hefði vefurinn khilafah.is verið skráður á Íslandi. Fyrir léninu var Azym Abdullah skráður en hann var sagður til heimilis á Nýja Sjálandi. Lénið var skráð hjá ISNIC og vefsíðan hýst af Thor Data Center, sem aftur var hýst af Advania. Eftir dálítið fum og fát ákvað ISNIC af afskrá þetta lén sem talið var sýna víðtæka netvirkni Íslamska ríkisins.