3.4.2015 21:00

Föstudagur 03. 04. 15

Samtal mitt við Véstein Ólason, prófessor emeritus, á ÍNN miðvikudaginn 1. apríl má nú sjá hér á netinu. Við ræðum saman um útgáfu Vésteins og Jónasar heitins Kristjánssonar á Eddukvæðinum hjá Fornritafélaginu undir lok síðasta árs.

Umræður um eitthvað sem skiptir engu máli halda áfram þegar ESB-spurningin er annars vegar. Nú hefur verið birt niðurstaða í skoðanakönnun sem sýnir að meirihluti þeirra sem svara er andvígur afturköllun umsóknar um aðild að ESB. Hverjum dettur í hug að verja fé og kröftum til að spyrja um þetta? Umsóknin hefur verið afturkölluð og verður ekki virk að nýju nema þjóðin samþykki í atkvæðagreiðslu að viðræðum við ESB verði fram haldið. Þeim var hætt í janúar 2013 vegna ágreinings um sjávarútvegsmál.

Vilji menn leita svara við spurningum sem skipta máli þegar samskiptin við ESB eru til athugunar eiga þeir að spyrja hvort þjóðin vilji afsala sér ráðum yfir 200 sjómílunum til að geta hafið viðræður að nýju við ESB. Eða hvort þjóðin vilji að ESB ákveði aflaheimildir á makríl fyrir íslensk skip. Á þennan hátt yrði kallað eftir viðhorfi þjóðarinnar til raunverulegra álitamála.

Það „kostar ekkert“ að segjast andvígur því að ónýt umsókn sé kölluð heim frá Brussel eða að segjast vilja fá að „kíkja í pakkann“. Unnt er að segja já eða nei án þess að það breyti nokkru. Þegar kemur að samningsmarkmiðum um raunveruleg hagsmunamál skiptir máli hvað fólk segir. Hinar marklausu spurningar í skoðanakönnunum vegna ESB-málanna smita frá sér til annarra spurninga eins og sést á miklu fylgi Pírata í könnunum. Gerviumræður kalla á gervisvör.

Framsóknarflokkurinn er frægur fyrir að setja mál þannig á oddinn vegna kosninga að hann dregur að sér fylgi úr ólíklegustu áttum – þetta hefur magnast eftir kosningarnar árið 2007. Ástæða er til að velta fyrir sér hvort flokkurinn færist nú í þennan búning og búi sig undir kosningar.