Laugardagur 25. 04. 15
Clinton-hjónin í Bandaríkjunum eru vön að vera á milli tanna fjölmiðlamanna í heimalandi sínu og annars staðar. Á það er bent að þau hafi á sínum snerum menn sem eru leiknir í að snúa umræðum um þau á þann veg að skaðinn verði sem minnstur fyrir þau. Það sé stundum gert með því einu að þeir koma fram í fjölmiðlum og segja: „Þetta er nú ekkert nýtt“ og við það eitt fari fjölmiðlamenn einfaldlega að tala um eitthvað annað.
Hillary Clinton stefnir nú í annað sinn að forsetaframboði fyrir Demókrataflokkinn. Hún tapaði árið 2008 prófkjöri fyrir Barack Obama. Prófkjörsbaráttan er hafin og er Hillary í raun eini frambjóðandinn innan flokks demókrata en orðspor hennar og Bills Clintons er kannski helsti andstæðingur hennar. Nú beinist athygli að Clinton-stofnuninni og sjóði á hennar vegum.
Venjulega eru blöð á borð við The New York Times (NYT) og The Washington Post demókrötum hliðholl. Fimmtudaginn 23. apríl reið NYT hins vegar á vaðið með gagnrýninni frásögn úr bók eftir Peter Schweizer sem væntanleg er á næstunni og heitir Clinton Cash og snýr að fjármálasviptingum í tengslum við Clinton-hjónin.
Fréttin í NYT snerist um Clinton-stofnunina, Clinton Foundation, og kaup Rússa á úraníumfyrirtæki. Seljendur gáfu stórfé til Clinton-stofnunarinnar án þess að hún gerði nægilega góða grein fyrir gjöfinni. Salan til Rússa gat ekki gengið eftir nema bandaríska utanríkisráðuneytið gæfi leyfi sitt. Það var gert formlega í nafni utanríkisráðherrans sem var Hillary Clinton á þeim tíma. Hillary segir að hún hafi ekki vitað um þetta málið hafi ekki komið beint til kasta hennar.
Ekki er í sjálfu sér dregið í efa að Hillary hafi ekki komið að afgreiðslu leyfisins í utanríkisráðuneytinu en hún bar pólitíska ábyrgð á henni. Fréttirnar og umræðurnar um þetta mál hafa ýtt undir þá skoðun sem er næsta almenn ef marka má kannanir að ekki sé unnt að treysta henni, hún sé ekki heiðarleg þótt litið sé á hana sem öflugan leiðtoga.
Bandarískir álitsgjafar segja að ekki sé unnt að afgreiða þetta mál með orðunum: „Þetta er nú ekkert nýtt.“