26.4.2015 19:00

Sunnudagur 26. 04. 15

George Stephanopoulos, fyrrverandi almannatengill fyrir Bill Clinton í Hvíta húsinu, núverandi stjórnandi hjá ABC-sjónvarpsstöðinni á þættinum ABC News´This Week átti í vök að verjast sunnudaginn 26. apríl þegar hann ræddi fjármál Clinton-sjóðsins og Clinton-hjónanna við repúblíkanann Newt Gringrich, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í forsetatíð Bills Clintons og tvo landsþekkta blaðamenn.

Kosningaskrifstofa Hillary Clinton neitaði að senda nokkurn fulltrúa sinn í umræðuþætti helgarinnar til að verja málstað forsetaframbjóðandans gegn þeim ásökunum sem blöð hafa birt úr væntanlegri bók eftir Peter Schweizer, Clinton Cash. Í þætti Stephanopoulos, sem var mjög brugðið við að hafa fengið höfnun frá kosningastjórn Hillary, var Donna Brazile málsvari Demókratasflokksins. Hún reyndi árangurslaust að gera lítið úr væntanlegri bók án þess að hún hefði lesið hana. Lét hún eins og nú væri verið að umskrifa hana vegna leiðréttinga sem birst hefðu í fjölmiðlum.

Newt Gingrich lá ekki á skoðun sinni. Hann telur að leggja eigi fram kæru vegna þess sem fram hefur komið, að minnsta kosti verði að hefja opinbera sakamálarannsókn. Hér sé ekki um pólitískt vandamál að ræða heldur virðingu fyrir bandarísku stjórnarskránni sem banni viðtöku fjár frá erlendum ríkisstjórnum án þess að fyrir liggi skýr heimild Bandaríkjaþings.

Nú liggi fyrir að í landinu hafi setið utanríkisráðherra sem hafi stórhækkað gjaldtöku sína fyrir að flytja ræður og þá megi sjá mörg merki um fólk sem gefið hafi milljónir dollara og hafi einnig í leiðinni þurft aðstoð utanríkisráðuneytisins. Þar sem hún hafi setið í Watergate-nefndinni hafi hún vitað nákvvæmlega hvað þurfti að gera. Hún hafi þurrkað út 33.000 tölvubréf. Richard Nixon hafi aðeins þurrkað út 18 mínútur á spólunum í Hvíta húsinu. Taldi Gingrich að yrði málið lagt fyrir kviðdóm mundi hann líta á það í heild og telja að um stjórnarskrárbrot væri að ræða.

Bloomberg-blaðamennirnir Mark Halperin og John Heilemann réttu Stephanopoulos og Brazile ekki hjálparhönd heldur áréttuðu alvarleika málsins fyrir Clinton-hjónin. Halperin sagði: „.. Þetta er stóralvarlegt. Ímyndið ykkur að aðstoðar-utanríkisráðherra hefði gert sem við vitum að Hillary Clinton – sem við vitum að þau [Clinton-hjónin] gerðu. Hann hefði verið rekinn úr utanríkisráðuneytinu.“