12.4.2015 20:30

Sunnudagur 12. 04. 15

Tilkynnt var í dag að Hillary Rodham Clinton ætlaði í annað sinn að leita eftir tilnefningu innan Demókrataflokksins til að verða forsetaframbjóðandi í kosningunum í nóvember 2016. Það var John Podesta, kosningstjóri Hillary, sem kynnti þetta í tölvubréfum til stuðningsmanna. Andstæðingar hennar minna til dæmis á að hún sé svo inngróinn hluti af bandaríska valdakerfinu að í 18 ár hafi hún ekki sest undir stýri á eigin bíl því að hún hafi í öll þessi ár nýtt sér þjónustu öryggisvarða.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra beindi athygli að ítökum kröfuhafa í opinberum umræðum hér á landi í ræðu á flokksþingi framsóknarmanna. Ábendingar ráðherrans kalla á athuganir fjölmiðlamanna og þar stendur Hörður Ægisson, viðskiptaritstjóri DV, fremstur meðal jafningja eins og til dæmis má sjá hér.

Um forvirkar athuganir eins og stundaðar eru í þágu kröfuhafanna gildir hið sama og jafnan um slíkar rannsóknir: ekki er allt sem sýnist. Leita má hins sanna með því að greina opinberar umræður og yfirlýsingar auk þess sem vitneskja um þá sem hlut eiga að máli auðvelda skilninginn.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, segir á Facebook-síðu sinni í dag:

„Varla eru sálfræðilegar greiningar bestu sérfræðinga [unnar fyrir kröfuhafa] á leiðtogum íslenska ríkisins það slæmar að skaði hagsmuni ríkisins að birta þær. - 4. þm. Reykjavíkur norður - þ.e.a.s. ég -óskar því hér með eftir því að birtar verði allar sálfræðilegar greiningar sem forsætisráðherra kann að hafa undir höndum um sjálfan sig og aðra stjórnmálamenn. Varla mun úrskurðarnefnd um upplýsingamál standa gegn svo sakleysislegri beiðni. – Ég er strax farinn að hlakka til lestrarins – en geri ráð fyrir að fátt muni koma mér á óvart!“

 

Egill Helgason álitsgjafi bregst við orðum forsætisráðherra eins og áður þegar forvirk rannsóknarvinna kemur til umræðu. „En það er ekkert sérlega vænlegt að reyna að fylkja fólki á bak við eitthvað sem virkar eins og vænisýki. Það er eins og orðum forsætisráðherra sé sérstaklega beint til hóps sem er móttækilegur fyrir slíku, en hinir eru litlu nær,“ segir Egill.

Að leitast sé við að dreifa upplýsingum um 18 milljarða króna ráðgjafar- og greiningarvinnu á dreif með hótfyndni vekur spurningar um tilganginn.