11.4.2015

Nú skal 365 beitt gegn réttarkerfinu

Í Fréttablaðinu birtist laugardaginn 4. apríl á leiðarastað skoðun eftir Kristínu Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra og útgefanda hjá 365, þar sem vegið var að dómstólum og sérstökum saksóknara vegna meðferðar á Aurum-málinu svonefnda en þar er Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrv. eigandi Fréttablaðsins og núverandi áhrifamaður hjá 365, meðal sakborninga.

Kristín var upplýsingafulltrúi Jóns Ágeirs þegar hann stjórnaði Baugi. Í Fréttablaðinu 4. apríl brá hún sér í það hlutverk að nýju. Nýtti hún sér aðstöðu sína sem útgefandi og aðalritstjóri til að upplýsa lesendur um að Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari hefði ætlað að birta grein í Fréttablaðinu hinn 10. júní 2014 en hætt við það. Engu að síður sagði hún frá efni greinarinnar þar sem hún taldi það þjóna málstað Jóns Ásgeirs og annarra sakborninga í Aurum-málinu. Kristín sagði í lok ritstjórnargreinar sinnar:

„Það er nauðsynlegt að upplýsa hvort sérstakur saksóknari laug þegar hann sagðist ekki hafa vitað um tengsl Sverris og Ólafs Ólafssona. Niðurstaða Hæstaréttar er óboðleg, og má ekki verða endahnútur þessa máls. Nú taka fjölmiðlar við.“

Hér er ekki skafið utan af hlutunum og að lokum klykkt út með hótun. Fjölmiðlum verði beitt gegn þeim sem ekki séu sammála stjórnendum Fréttablaðsins. Á tíma Baugsmálsins, þegar miðlum Jóns Ásgeirs var beitt í þágu eiganda síns í átökum hans við réttarkerfið, töluðu stjórnendur miðlanna aldrei af slíkri hreinskilni um þjónustuna við eigandann.

Morgunblaðið fjallaði um einstæð skrif Kristínar í leiðara fimmtudaginn 9. apríl og sagði meðal annars:

„Frægt er að aðalleikarinn í baugsmálum forðum sagði síðar að hann hefði þurft að verja milljörðum vegna málatilbúnaðar þess. Þeir fjármunir hafa aldrei verið sundurliðaðir. En ljóst er þó að beinn lögfræðikostnaður, þótt hár væri, náði aðeins broti af slíkum fjárhæðum.

Framgangur fjölmiðla Baugs í málinu hafa sjálfsagt ekki verið gjaldfærðir. Fréttastofa „RÚV“ dansaði furðu viljug en frítt með í þeim málatilbúnaði öllum.

Margt bendir til að þeir, sem þá áttu í hlut hafi talið að fjárausturinn og fjölmiðlastyrkurinn hafi náð því fram, að hafa áhrif á almenningsálitið og það aftur á endanlegar niðurstöður.

Því skal enn reynt.“

Hér skal engu spáð um áhrif þessara skrifa Kristínar Þorsteinsdóttur á dómara eða saksóknara. Í kjölfar þeirra sigldu síðan fréttir um að Ólafur Ólafsson, sem gjarnan er kenndur við Samskip, sæti sem fangi á Kvíabryggju á röngum forsendum. Eiginkona Ólafs sagði í Fréttablaðinu að hæstaréttardómarar hefðu farið mannavillt og maður sinn hefði því verið dæmdur á röngum forsendum.

Var vitnað í grein eiginkonunnar á forsíðu Fréttablaðsins. Þá var rætt við lögfræðinga málstað hennar til stuðnings. Fjölmiðillinn tók málið í sínar hendur.

Viku eftir að andróður aðalritstjórans gegn hæstarétti og saksóknara hófst birti Kristín Þorsteinsdóttir aðra grein á leiðarastað Fréttablaðsins. Laugardaginn 11. apríl segir hún að Fréttablaðið hafi „undanfarnar vikur“ sagt fréttir af dómsmálum sem eigi rót að rekja til bankahrunsins. Þar sé um mikilvæg mál að ræða sem snúst öðrum þræði um merkilegt tímabil í Íslandssögunni. 

„Það væri undir eðlilegum kringumstæðum ekki sérstakt tilefni til leiðaraskrifa að dagblað hefði sagt fréttir. En viðbrögðin gefa tilefnið,“ segir Kristín og tekur til við að skýra eða afsaka fréttaskrifin um lygabrigslin í garð sérstaks saksóknara og afsakar þau með vísan til óbirtrar greinar eftir Guðjón St. Marteinsson héraðsdómara „reyndustu menn [muni] ekki eftir viðlíka ásökunum á hendur handhafa ákæruvalds“.

Þetta hljóti að vera frétt og einnig það sem kom fram í grein Ingibjargar Kristjánsdóttur, eiginkonu Ólafs Ólafssonar.

Aðalritstjórinn segir að Fréttablaðið taki enga afstöðu heldur segi fréttir og veiti handhöfum opinbers valds aðhald. Aðrir geti svo dregið sínar ályktanir. Það geri sumir með því að rýna í fortíð fólks, hvar það hafi unnið, hverjir séu vinir þess, hvaða flokk það kjósi. „Morgunblaðið fellur í þessa gryfju. Margur heldur mig sig,“ segir Kristín og bætir við:

„Fréttablaðið getur fullvissað lesendur um að það er ekki á neinni slíkri vegferð. Það segir fréttir, allar fréttir ekki bara sumar, og reynir að hafa þær sannar, hlutlausar og upplýsandi. […] Það væri heldur bitlaus varðhundur sem ekki gelti, þegar handhöfum opinbers valds verður á í messunni.“

Þetta er léleg málsvörn hjá aðalritstjóranum. Eitt er að segja fréttir og meta hvað á heima hvar í viðkomandi blaði. Annað er umgjörðin, samhengið og skoðun miðilsins.

Kristín Þorsteinsdóttir ýtti nýlega Sigurjóni Magnúsi Egilssyni til hliðar og úr stóli helsta skoðanasmiðs Fréttablaðsins. Var það í sjálfu sér skiljanleg ráðstöfun því að það sem Sigurjón Magnús hafði fram að færa á leiðarastað blaðsins vakti hvorki athygli né umræður.

Hið fyrsta sem Kristín gerði eftir að hafa losað sig við Sigurjón Magnús var að skrifa gegn hæstarétti og sérstökum saksóknara í þágu Jóns Ásgeirs . Varðhundinum yrði beitt gegn hæstarétti og saksóknaranum. Að þessu víkur Kristín ekki einu orði hinn 11. apríl.

Hvers vegna þegir aðalritstjórinn um eigið framlag til umræðna sem má einmitt rekja til skoðunar sem ritstjórinn kynnti? Ástæðan er sú að Kristín vill láta líta út eins og henni sé í mun að verja ritstjórnarlegt sjálfstæði Fréttablaðsins á sama tíma og hún þrengir það með sérþjónustu við þá sem telja sig eiga undir högg að sækja vegna rannsókna sérstaks saksóknara og málaferla að frumkvæði hans.

Grein Kristínar Þorsteinsdóttur laugardaginn 11. apríl sýnir að hún er í vörn gagnvart starfsmönnum 365. Þar á bæ minnast margir niðurlægingarskeiðsins þegar Baugsmiðlunum var misbeitt í þágu eigenda sinna. Þessir starfsmenn vilja ekki að niðurlæging vinnustaðar þeirra endurtaki sig þótt Jón Ásgeir Jóhannesson sitji enn og aftur undir ákæru.

Hreinsanir á ritstjórn 365 og einkum Fréttablaðsins undanfarin misseri hafa allar miðað að því að herða tök Jóns Ásgeirs á ritstjórninni. Eftir misnotkunina á Baugsmiðlunum árin 2002 til 2008 hafa margir fyrrverandi starfsmenn vitnað um hana. Því verður seint trúað að þeir sem muna þann tíma vilji kalla sömu örlög yfir vinnustað sinn og einkenndu hann þá. Stefnan þangað hefur þó verið tekin undir forystu aðalritstjóra og útgefanda 365, Kristínar Þorsteinsdóttur.