10.4.2015 19:10

Föstudagur 10. 04. 15

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var ómyrkur í máli í setningarræðu á 33. flokksþingi framsóknarmanna í dag þegar hann ræddi um kröfuhafana og sagði þá njósna og sálgreina eins og lesa má um hér. 

Forsætisráðherra sagði að umsvif kröfuhafanna hefðu verið og væru nán­ast óhugn­an­leg og ómögu­legt væri að segja til um hversu langt þau næðu, en ný­leg­ar frétt­ir hermdu að kröfu­haf­ar hefðu keypt hags­muna­gæsluþjón­ustu hér á landi fyr­ir 18 millj­arða króna á und­an­förn­um árum.

Hvað felst í orðinu „hagsmunagæsluþjónusta“? Það er þjónusta lögmanna og almannatengla og jafnvel stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna. Þar sem ákvarðanir um hag kröfuhafanna ráðast á stjórnmálavettvangi er auðvelt að gera sér í hugarlund að sálfræðigreining sé notuð til að átta sig á hvar auðveldast er að koma ár sinni fyrir borð til að þrýstingurinn beri sem mestan árangur.

Í aðdraganda þingkosninganna sem verða eftir tæpan mánuð í Bretlandi tóku fjölmiðlamenn sig til, fóru í dulargervi og hófu viðræður við áhrifamenn í stjórnmálum í því skyni að fá þá til að sinna „hagsmunagæsluþjónustu“. Tveir gamalreyndir þingmenn og fyrrverandi ráðherrar, Sir Malcolm Rifkind úr Íhaldsflokknum og Jack Straw úr Verkamannaflokknum, féllu á prófinu og hættu pólitískum afskiptum vegna þess að þeir lýstu sig fúsa til samninga um það sem á ensku er kallað cash for access það er að þiggja greiðslur fyrir aðgang að ákvarðanaferli.

Við höfum orðið vitni að því undanfarna daga hvernig Fréttablaðinu er beitt til að hafa áhrif í þágu sakborninga. Þar eru hagsmunir eigenda blaðsins eru í húfi. Þessi tilraun til áhrifa á dómara og almenningsálitið blasir við öllum sem lesa blaðið.

Mikilvægt er að greint verði hvernig hagsmunagæsluþjónustan við kröfuhafa birtist á vettvangi stjórnmála og fjölmiðla. Þar er þjóðarhagur í húfi en ekki einstakra sakborninga.