8.4.2015 19:10

Miðvikudagur 08. 04. 15

Í dag ræddi ég við Lovísu Christiansen, framkvæmdastjóra Krýsuvíkursamtakanna, í þætti mínum á ÍNN. Hún hefur haldið utan um starfsemi þessara merku samtaka síðan 1997. Þau reka meðferðarheimili í Krýsuvík fyrir vímuefnaneytendur. Vegna þess að reksturinn hefur verið í jafnvægi í tæp 20 ár hefur verið hljótt um hann. Nú hallar þó á ógæfuhlið og að óbreyttu þarf að fækka vistmönnum vegna fjárskorts. Sjón er sögu ríkari. Samtal okkar verður frumsýnt klukkan 20.00 og verður síðan sýnt á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Uppátæki Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra að senda einhverja orkubita í fjármálaráðuneytið með kröfu um að embættismenn þar hraði mati á fjárskuldbindingum vegna tillagna hennar í húsnæðismálum er fáheyrt. Þetta er enn eitt dæmið um að framsóknarráðherrar grípi til furðuráða til að vekja á sér athygli.

Dagana 10. til 12. apríl verður 33. flokksþing framsóknarmanna haldið. Þrír ráðherrar skipa æðstu trúnaðarstöður innan flokksins: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður, Sigurður Ingi Jóhannsson varaformaður og Eygló Harðardóttir ritari. Sigmundur Davíð dró að sér athygli yfir páskahelgina með nýstárlegum hugmyndum um opinberar byggingar og staðarval fyrir Landspítala, Sigurður Ingi segir að Fiskistofa verði ekki flutt til Akureyrar í ár og Eygló sendir orkubita til að fá umtal á kostnað fjármálaráðuneytisins.

Allt verður þetta væntanlega til að styrkja ráðherrana í sessi í forystu flokks síns hvað sem öðrum finnst. Umræðurnar á flokksþinginu verða þó að rista dýpra vilji framsóknarmenn rétta hlut flokks síns og styrkja stöðu hans miðað við niðurstöður skoðanakannanna. Flokkurinn sló sér upp á Icesave-afstöðu sinni á sínum tíma. Hann hefur hins vegar ekki fengið byr í seglin vegna skuldaleiðréttingarinnar þrátt fyrir að framkvæmd hennar hafi verið snurðulaus, megi marka fréttir.

Vegna þess hve Framsóknarflokkurinn mælist með lítið fylgi er ólíklegt að háværar raddir verði á flokksþinginu um að hann slíti stjórnarsamstarfinu. Til hins er að líta að sögu innlendra ríkisstjórna í tæp 100 ár, frá 1917, hefur aðeins ein samsteypustjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti framsóknarmanns setið í heilt kjörtímabil – ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1983 til 1987. Stólaskipti voru tíð meðal sjálfstæðismanna í stjórninni, endurspegluðu þau spennu innan Sjálfstæðisflokksins eftir klofninginn innan hans vegna ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens 1980 til 1983.