2.4.2015 19:00

Fimmtudagur 02. 04. 15

Björn Þorláksson, blaðamaður og rithöfundur, skrifar pistil á netið fimmtudaginn 2. apríl undir fyrirsögninni: Fæðuöryggisráðið næst dagskrá. Þar er boðað að bestu viðbrögð við hugsanlegri ógn sé að gera ekki neitt heldur vona hið besta auk þess megi færa rök fyrir að Bandaríkin séu uppspretta alls ills í veröldinni.

Þetta er hvorki frumlegt né vel ígrundað. Í upphafi greinar sinnar segir Björn Þorláksson:

„Á tíunda áratug síðustu aldar var Guðjón Petersen, þáverandi forstjóri Almannavarna, sem dæmi nokkuð hrifinn af hugmynd um íslenskan her og ræddi þær í fjölmiðlum. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur einnig oft talað fyrir svipaðri hugmynd.“

Guðjón Petersen lét af störfum hjá Almannavörnum ríkisins árið 1995 sama árið og ég flutti erindi á alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjavík og varpaði fram spurningum um hvað Íslendingar hefðu burði til að takast á hendur til varnar eigin landi þegar Bandaríkjaher drægi saman seglin – það gerðist 11 árum síðar.

Árið 2006 sat ég í embætti dómsmálaráðherra og stóð að tillögum um viðbrögð stjórnvalda við brottför Bandaríkjahers án þess að leggja fram tillögu um að koma á fót íslenskum her. Færði ég þess í stað rök fyrir að efla ætti borgaralega varðstöðu með því að styrkja lögreglu og landhelgisgæslu. Að ég hafi oft talað fyrir þeirri hugmynd að koma á fót íslenskum her er rangt hjá Birni Þorlákssyni, getur hann bent á eitt dæmi um það?

Að öðrum þræði má skilja hugleiðingu Björns Þorlákssonar á þann veg að hann sé talsmaður öflugra fjölmiðla og skoðanaskipta. Á hinn bóginn vill hann gera lítið úr skoðunum sem hann er ósammála. Hann segir til dæmis:

„Ef stofnun Þjóðaröryggisráðs Íslands er eitt af brýnustu verkum samtímans má spyrja hvort næsta skref verði ekki að stofna Fæðuöryggisráð Íslands? Fæðuöryggi hefur verið nefnt sem ein rökin gegn ESB. Forsætisráðherra er smeykur við að snæða erlendan mat þegar hann fer út fyrir landsteinana. Er hann góður vegvísir?“

Þetta er frekar aulafyndni en markvert framlag til rökræðna.