13.4.2015 20:30

Mánudaginn 13. 04. 15

Vefritið Andríki fékk MMR til að kanna hug landsmanna til þessarar spurningar: Vilt þú að Ísland sé umsóknarríki að Evrópusambandinu? Svörin voru birt í dag: Af þeim sem tóku afstöðu voru 50,5% andvíg því að Ísland væri umsóknarríki en 49,5% væru því fylgjandi. Miðað við vikmörk er ekki marktækur munur á milli þessara hópa.

Það er sérstakt rannsóknarefni að kynna sér spurningaflóruna í könnunum um afstöðu Íslendinga til ESB. Orðalag og efni spurninganna endurspegla það sem ber hæst í umræðum hverju sinni. Nú er spurt hvort Ísland sé umsóknarríki eða ekki!

Ríkisstjórnin hefur lýst yfir að svo sé ekki, óskað hefur verið eftir að stjórnendur ESB mái nafn landsins af lista sínum yfir umsóknarríki. Brusselmenn fara undan í flæmingi og ekki hafa borist fréttir af svörum þeirra þótt mánuður sé síðan utanríkisráðherra sjálfur afhenti það formanni ráðherraráðs ESB, utanríkisráðherra Lettlands.

Hugtakið „umsóknarríki“ er án inntaks að því er Ísland varðar þegar ríkisstjórnin hefur afmáð það og enginn stjórnmálaflokkur vill blása lífi í það nema þjóðin samþykki í sérstakri atkvæðagreiðslu að rætt skuli áfram við ESB.

Illskiljanlegt er að ráðherraráð ESB og framkvæmdastjórn virði ekki ósk ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Það er örugglega ekki af umhyggju fyrir ESB-aðildarsinnum hér á landi heldur ráða einhverjir hagsmunir Brusselmanna sem telja sér sýnd óvirðing – var þó bréf utanríkisráðherrans samið eftir samráð hæstsettu embættismanna hans við ráðamenn ESB.