11.4.2015 19:15

Laugardagur 11. 04. 15

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna vegna þess hvernig Fréttablaðið hefur vegið að hæstarétti og sérstökum saksóknara undanfarna daga undir forystu aðalritstjóra og útgefanda blaðsins, Kristínar Þorsteinsdóttur. Á Kjarnanum birtist grein um sama efni eftir Þórð Snæ Júlíusson sem þekkir vinnubrögð á blaði undir áhrifamætti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af eigin raun, má lesa greinina hér.

Í raun er óskiljanlegt hvernig fjölmiðlamenn hjá 365 una þessari ofstjórn í þágu einkahagsmuna Jóns Ásgeirs.

Forystumenn Framsóknarflokksins hlutu glæsilegt endurkjör á flokksþinginu í dag: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hlaut 98,2% atkvæða í formannskjöri, Sigurður Ingi Jóhannsson 90% í varaformannskjöri og Eygló Harðardóttir 92% sem ritari. Þessi eindrægni um forystumennina ætti að auðvelda þeim að endurvekja áhuga kjósenda á flokknum, ekki veitir af því.

Setningarræða Sigmundar Davíðs vakti verðskuldaða athygli. Hann sagði í ríkisútvarpinu að þeir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra væru samstiga í mótun stefnu og aðgerða til að afnema fjármagnshöftin, skárra væri það. Nú verða stjórnvöld að láta hendur standa fram úr ermum, nógu oft og lengi hefur verið talað um að afnám hafta sé á næsta leiti. Aðdragandinn skapar sérkennilegt ástand á sem getur unnið gegn stöðugleikamarkmiðinu á lokastigum.

Hlægilegt er að sjá viðbrögð stjórnarandstöðunnar. Kafteinn stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Birgitta Jónsdóttir, lét í hádeginu eins og þingtíminn væri of stuttur til að afnema höftin í vor – sá tími er teygjanlegur, hafi Birgitta pantað sér flug í frí, kemur varamaður fyrir hana. Össur Skarphéðinsson hefur áhyggjur af því að Bjarni Benediktsson viti ekki um áform Sigmundar Davíðs og Árni Páll Árnason segist ekki hafa fengið að sjá á spil ríkisstjórnarinnar – hvers vegna á hún að ráðgast við hann? Árni Páll telur ekki unnt að afnema höftin án þess að ganga í ESB – hefur hann skipt um skoðun?