6.4.2015 19:20

Mánudagur 06. 04. 15

Ég birti í dag pistil hér á síðunni og má lesa hann hér.

Í skýrslunni sem KPMG vann fyrir ASÍ, Samtök atvinnulífsins o. fl. og geymir sviðsmyndir um leiðir úr gjaldeyrishöftunum segir Svanbjörn Thoroddsen í aðfararorðum:

„Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Félag atvinnurekenda og Viðskiptaráð Íslands óskuðu sameiginlega eftir því að KPMG stýrði […] vinnu við sviðsmyndagreiningu á losun hafta, en þó með þeirri grunnforsendu að ákveðið hefði verið að ganga í Evrópusambandið (ESB) og taka upp evru. Sviðsmyndagreiningin fjallar um líkleg áhrif af losun fjármagnshafta á atvinnu- og efnahagslíf frá ákvörðun um inngöngu í ESB með upptöku evru fram að upptöku. […]

Tekið skal skýrt fram að sviðsmyndagreiningin felur á engan hátt í sér afstöðu þátttakenda eða aðstandenda þessarar vinnu til ESB eða inngöngu Íslands í ESB“

Gott og vel. Þetta sýnir að skýrslan er í raun algjörlega í lausu lofti. Engin ákvörðun liggur fyrir hvorki um inngöngu í ESB né upptöku evru. Til að ákvörðun um inngöngu sé tekin þarf tvær þjóðaratkvæðagreiðslur og breytingu á stjórnarskránni.

Það er miklu nærtækara að velta fyrir sér hvað þeir sem báðu um þessa skýrslu ætla að gera í kjaraviðræðum á líðandi stundu til að auðvelda leiðina úr höftum.

Í fjögur ár, 2009 til 2013, var ríkisstjórn sem vildi ekki losa um höftin: Samfylkingin vildi nota þau til að knýja á um ESB aðild og VG til að ráðskast með stjórnfyrirtækja.

Núverandi ríkisstjórn vill ekki inn í ESB en hún vill úr höftum – ákvörðunar hennar er beðið.